Erum miklu betra lið en Eistland

Viggó Kristjánsson glaðbeittur á æfingu landsliðsins.
Viggó Kristjánsson glaðbeittur á æfingu landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við spiluðum við þá heima og úti í síðustu undankeppni og unnum þá nokkuð örugglega. Við þurfum að taka þeim alvarlega og spila vel. Við erum með miklu betra lið og eigum að klára þetta lið,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handbolta við mbl.is.

Ísland mætir Eistlandi í tveimur leikjum í umspili um sæti á lokamóti HM á næsta ári. Fyrri leikurinn er í Laugardalshöll í kvöld og sá seinni ytra á laugardag.

Viggó hefur verið í stóru hlutverki hjá Leipzig á leiktíðinni, en liðið er í áttunda sæti þýsku 1. deildarinnar sem stendur, aðeins neðar en liðið ætlaði sér að vera.

„Við erum í áttunda sæti eins og er. Markmiðið okkar var að ná topp sex upp á Evrópusæti. Það er markmiðið hjá fullt af liðum og sum þeirra voru ekki nálægt því.

Þetta eru blendnar tilfinningar, því það hafa verið fínir kaflar inni á milli en svo aðrir kaflar sem hafa ekki verið nógu góðir. Heilt yfir hefur þetta bara verið fínt, en ekki alveg eftir væntingum,“ sagði hann.

Rúnar Sigtryggsson þjálfar nú Leipzig og voru miklar sveiflur eftir að hann tók við. Fyrst fór liðið á rosalegt flug, en datt síðan vel niður. Meiri stöðuleiki hefur verið síðustu mánuði, en Viggó sagði liðið almennt hafa sýnt stöðuleika undanfarin ár.

„Áður en Rúnar kom hafði Leipzig verið fimm ár í röð á meðal tíu efstu í deildinni. Það er stöðuleiki. Liðið var svo í sjötta sæti árið áður en ég kom,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert