Eins svekkjandi og fótboltinn getur orðið

Ólafur Jóhannesson þjálfari FH.
Ólafur Jóhannesson þjálfari FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ólafur Jóhannesson þjálfari FH var að vonum svekktur eftir dramatískt 1:0-tap gegn KA á Dalvíkurvelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Þetta er eins svekkjandi og fótboltinn getur orðið, það er bara þannig. Það er ömurlegt að tapa svona en leikurinn var svo sem ekkert sérstakur hjá okkur og lítið að gerast. Mér fannst hann aldrei ná neinu flugi hjá hvorugu liðinu og þetta stefndi allan tímann í að verða steindautt jafntefli.“

KA skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins eftir að brotið var á Nökkva Þey Þórissyni. Hann tók spyrnuna sjálfur og skoraði af öryggi. Ólafur segist ekki hafa séð atvikið nægilega vel til að tjá sig um það.

Næsti leikur FH er heimaleikur gegn ÍBV.

„Við förum heim núna og skoðum þetta. Við erum svo sem ekki byrjaðir að undirbúa þann leik en það er ljóst að við verðum að spila betur en í dag.“

Lasse Petry spilaði sinn fyrsta leik fyrir FH í kvöld og stóð sig með prýði.

„Já ég er ánægður með að hann skyldi komast í gegnum leikinn. Hann verður bara betri. Hann er í fínu standi, kannski ekki búinn að spila mikið en líkamlega standið er fínt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert