Tyrkir komust yfir eftir aðeins rétt rúmlega mínútu leik, eftir að Jóhann missti boltann frá sér.
„Það voru stór mistök hjá mér að missa boltann á hættulegu svæði. Ég var ólíkur sjálfum mér fyrstu tuttugu mínúturnar en kom svo ágætlega inn í þetta,“ sagði Jóhann við Stefán Árna Pálsson í Tyrklandi.
„Auðvitað er erfitt þegar þú gefur andstæðingum eins og Tyrkjum forskot, en við komum til baka sem var fábært. Við vorum nokkuð góðir fannst mér en auðvitað eru þeir með mjög góð einstaklingsgæði, svo þetta var erfitt. En við vorum algjörlega inni í þessu í stöðunni 1-1, svo skorar hann frábært mark, og svo erum við bara að sækja þegar þeir setja eitt í viðbót,“ sagði Jóhann.
Kerem Aktürkoğlu skoraði þrennu í leiknum en hann kom Tyrklandi í 2-1 snemma í seinni hálfleik:
„Auðvitað er vont að hleypa svona leikmanni á hægri fótinn. Það kom langur bolti þarna og við hefðum getað fært okkur kannski fyrr yfir. Þetta eru auðvitað bara mistök sem við kíkjum á og lærum af. Við eigum þá á heimavelli næst og það er gott að geta hefnt fljótt fyrir þetta,“ sagði Jóhann.
„Við þurfum að gera betur, við vitum það, en það er erfitt að koma hingað. Mikil stemning og frábærir leikmenn. Þeir voru betri en við í dag en við eigum aftur leik við þá fljótt og getum hefnt fyrir þetta þá,“ bætti hann við.