Innlent

„Ljóst að það er sýkla­lyfja­skortur í heiminum“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg. Júlíus Sigurjónsson

„Við höfum verið að bregðast við með að veita afslætti á skráningarferlum, og vera með hvata til að koma lyfjum úr undanþágukerfinu í markaðsetta hlutann hjá okkur. Það veitir okkur aukið öryggi í sambandi við birgðir og fleira,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar í samtali við Vísi.

Líkt og Vísir greindi frá þann 15.febrúar síðastliðinn hefur mikill lyfjaskortur gert starfsfólki Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu erfitt fyrir en kjörlyfið gegn streptókokkum hefur til að mynda ekki verið fáanlegt í nokkurn tíma. Önnur breiðvirkari sýklalyf hafa verið notuð, sem er þó ekki góður kostur. Fleiri virðast veikjast alvarlega í ár og því beint til starfsfólks að taka streptókokkapróf oftar en ekki.

Ýmsar pestir hafa herjað á landsmenn í vetur og eru streptókokkasýkingar þar engin undantekning. Skortur hefur verið á ákveðnum sýklalyfjum en Kåvepenin töflur og mixtúrur hafa til að mynda ekki verið fáanlegar frá því í byrjun febrúar, samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir heilmikið hafa verið um skort á lyfjum almennt undanfarið sem valdið hafi þeim miklum vandræðum í daglegu starfi.

Sýklalyfjaskortur um allan heim

„Ástandið er viðunandi núna eins og er, en það þarf að fylgjast mjög vel með þessu. Eins og er þá erum við að einblína mjög mikið á sýklalyfin. Kåvepenin , sem vantaði hvað lengst hjá okkur, er komið aftur til landsins, nema 800 milligrömmin,“ segir Rúna í samtali við Vísi.

„Það er ljóst að það er sýklalyfjaskortur í heiminum og við erum að reyna að bregðast við því, og heildsalarnir hérna. Það eru náttúrulega bara tvær leiðir, annaðhvort að vera með þessu skráðu lyf, sem eru skráð á íslenska markaðinn eða reyna að útvega undanþágulyf. Svefnlyf voru í skorti en það var ekki eins alvarlegt, því það voru önnur svefnlyf til. Skortur hefur einnig verið á hitalækkandi lyfjum í Evrópu, og það er verið að horfa til þess líka. Það er í raun það sama sem á við um verkjalyf, þó við höfum kannski farið betur út úr því en Evrópa.“

Krabbameinslyfið Tamoxifen Mylan 20 mg. hefur verið ófáanlegt á landinu frá 25. apríl í fyrra. Lyfið er meðal annars notað við brjóstakrabbameini og til draga úr líkum á endurkomu þess. Að sögn Rúnu er lyfið ekki væntanlegt aftur til landsins fyrr en mögulega næsta sumar. Þangað til er undanþágulyf í boði.

Getty

„Það hafa verið vandræði út um alla Evrópu. Sýkingarnar eru að ganga niður hér og erlendis og þetta er að komast fyrir vind. En það er líka hafinn undirbúningur hjá Evrópsku lyfjastofnuninni, varðandi það hvernig hægt er að bregðast við í haust, það er að segja með fyrirbyggjandi hætti. Það er verið að horfa til þess að auka framleiðslulugetu í Evrópu og tryggja að það verði nægilegar byrgðir af sýklalyfjum fyrir komandi vetur.“

Margir þættir spila inn í 

Hún segir ýmis atriði spila inn í fyrrnefndan lyfjaskort í Evrópu.

„Það hafa verið mjög mörg tilfelli af sýkingum og það leiðir þá auðvitað til þess að notkunin rýkur upp. Þar að auki hefur ekki verið full starfsemi í öllum verksmiðjum vegna Covid-faraldursins, og einnig eru allar flutningsleiðir í Evrópu orðnar aðeins flóknari. Lofthelgin er ekki eins opin og hún var, sem hægir á vöruflutningum. Hér á Íslandi höfum við stundum náð að redda okkur með stuttum fyrirvara en nú þarf fyrirvarinn kannski að vera lengri en áður.“

Hún segir smæð Íslands hafa bæði kosti og galla í för með sér. 

„Við þurfum jú minna magn til að redda okkur en að sama skapi þá erum við kannski ekki alveg efst á listanum hjá framleiðendum þegar kemur að því að passa upp á markaði. Það kallar á að við séum meira vakandi.“

Rúna segir stríðsátök í Evrópu sömuleiðis hafa áhrif.

„Vegna þess hefur fullt af fólki þurft að yfirgefa sitt heimaland, án þess að hafa lyfin sín eða sjúkraskrána, og fara til annarra landa, þar sem viðkomandi heilbrigðiskerfi þarf að taka við þeim. Lyfin eru náttúrulega hluti af því.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×