Þurfum að stefna að betra jafnvægi

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Raunverulega ættum við að vera að ræða leiðir til að ná utan um ástandið og hægja á hröðum snúningi efnahagshjólanna hjá okkur. Þetta er einfaldlega afleiðing af miklu spennustigi í hagkerfinu,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um verðbólgu sem mælist nú 9,9% á ársgrundvelli.

„Verið er að reyna að þræða leiðirnar út úr þessari stöðu af ýmsum aðilum. Af hálfu ríkissjóðs erum við með trúverðuga áætlun um að ná endum saman á ný og bæta afkomuna ár frá ári. Afkomubati ríkissjóðs í þessum hagvexti er mikilvægt innlegg.“

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í lok nóvember um 0,25% og hlaut talsverða gagnrýni fyrir, sér í lagi frá aðilum vinnumarkaðarins.

„Það hljóta að vera vonbrigði fyrir Seðlabankann að sjá þessa mælingu. Maður spyr sig hvort innistæða hafi verið fyrir þeirri miklu gagnrýni sem bankinn mátti þola við síðustu vaxtaákvörðun,“ segir Bjarni.

Bjarni segir áhrif af gjaldabreytingum um árámót mjög vel mælanlega stærð. Hann segir áhrif af þeim vera mæld um 0,4-0,5% af þeirri 9,9% verðbólgu sem mælist í dag á ársgrundvelli.

Mikil hækkun launa getur leitað út í verðlag

„Talsvert mikl lækkun á gengi krónunnar hefur áhrif og þá hafa verið hækanir á kostnaðarverði innfluttra vara. Þá megum við ekki gleyma því að laun í landinu hafa hækkað um 12,4 % á einu ári sem er verulega mikil hækkun launa og sagan sýnir okkur að slíkt hafi tilhneygingu til að leita út í verðlag.“

Bjarni segir laun hafa hækkað um meira en 4% í desembermánuði einum.

„Þegar við erum með miklar launahækkanir, gengislækkun, halla á rikissjóði og erum enn að taka út kaupmáttaraukningu, þá er mikið til í því sem Seðlabankinn er að segja. Það er of mikill hiti í hagkerfinu, sem er aftur ástæðan fyrir þrálátri verðbólgu og því að verðbólguvæntingar eru alls ekki að koma nægilega hratt niður.“

Ákveðin vonbrigði

Flestir greiningaraðilar eru sammála um að verðbólgan hjaðni eitthvað þegar líður nær vori. Miðað við 12 mánaða verðbólgu í dag hefurðu áhyggjur af því að þær spár séu of bjartsýnar?

„Ég hef trú á því að við séum við topp verðbólgunar um þessar mundir og við getum séð lægri verðbólgu þegar líður á árið. Hins vegar ef við lítum til baka þá eru ákveðin vonbrigði að verðbólgan hafi farið hærra og sé þrálátari en við vorum þá að gera ráð fyrir og verðbólguvæntingar á markaði eru ekki nægilega góðar. Verðbólguvæntingar á markaði eru um að þetta taki nokkurn tíma en þetta verður allt í rétta átt.“

Hart var sótt að forsætisráðherra í þinginu í gær og ríkisstjórnin sökuð um að bera töluverða ábyrgð á hækkun verðbólgu í upphafi árs og veita sveitarfélögum og fyrirtækjum ákveðna fjarvistarsönnun í sínum hækkunum.

„Menn þurfa að taka augað af smásjánni og leita skýringa í fleiru en gjaldskrárhækknunum um áramót. Þær eru aðeins lítið brot af þeirri 12 mánaða verðbólgu sem við erum að eiga við.

Lítið gert úr sveitarfélögunum

Það má meira að segja halda því fram að það hefði verið gáleysi af ríkisstjórninni að auka á hitann í hagkerfinu með því að láta skattstofnana rýrna núna um áramótin og láta gjaldskrár ekki fylgja verðlagi,“ segir Bjarni og heldur áfram.

„Það er ótrúlega lítið gert úr sveitarfélögunum sem sjálfstæðum einingum í okkar stjórnkerfi með þessu tali. Ég held að Reykjavíkurborg hafi hækkað sínar gjaldskrár í tvígang á árinu 2022. Það á ekki að tala svona niður til sveitarfélaganna eins og þau geti ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir.“

Bjarni segir umræðuna á endanum eiga að snúast um það hvernig fólki gengur að ná endum saman og segir að eðlilega hafi fólk áhyggjur af því í verðbólgunni. Hann segir sérstaklega ástæðu til að hafa áhyggjur af þeim sem glíma við húsnæðisvexti í því sambandi.

Þrátt fyrir þau vonbrigði sem felast í þessum nýjustu verðbólgumælingum erum við samt sem áður að gera ráð fyrir kaupmáttaraukningu eftir samfellt skeið kaupmáttarvaxtar.

Vinnumarkaðurinn þarf að finna annan takt

Við hækkuðum skattleysismörk og þrepamörkinn milli þrepa í tekjuskattskerfinu um áramót um 1% umfram verðlagsbreytingar. Það er lagabreyting sem ég fékk samþykkta á Alþingi fyrir nokkrum misserum síðan. Við getum sagt að með því fái fólk að jafnaði sjö til átta þúsund króna skattalækkun á mánuði vegna þeirra breytinga núna um áramótin.“

Fjármála- og efnahagsráðherra telur vinnumarkaðinn þurfa að finna annan takt þar sem aðaláherslan verði á traustan grundvöll fyrir vexti kaupmáttar í hægari skrefum.

„Við verðum að taka það með í reikninginn að það er augljóst að það er of mikil spenna í hagkerfinu þegar laun hækka um 12,4% milli ára.

Við þurfum að komast út úr því ástandi að laun hækki um 12% á ári en það er langt umfram allt sem talist getur eðlilegt. Við þurfum að taka höndum saman um að stefna aftur að betra jafnvægi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert