„Spáin er verri en veðrið“

Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu í Súðavíkurhlíð. Myndin er …
Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu í Súðavíkurhlíð. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Er einhvers staðar veður?“ spyr Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á Ísafirði, að bragði þegar blaðamaður spyr hann um stöðuna fyrir vestan. Guðmundur segir spána verri en veðrið og að Vegagerðin viti ekki til þess að snjóflóð hafi fallið á Vestfjörðum. 

„Hérna er þetta nú bara svona hraglandi og þræsingur, ekki mikið meira,“ segir Guðmundur.„Það er allhvöss norðaustanátt með einhverri lítilsháttar úrkomu.“

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi í Súðavíkurhlíð en Guðmundur segir að engin snjóflóð hafi fallið svo hann viti til. Óvissustigið gildi trúlega fram yfir hádegi. 

„Við gerum ráð fyrir því að á meðan þessi úrkoma er og þessi stífa norðanátt verði það inni,“ segir Guðmundur. 

Hlýindi lán í óveðri

„Lánið okkar er það að í fyrrinótt gekk upp í átta stiga hita hérna yfir þannig að það er voðalega lítill snjór til í landinu og lítið sem getur fokið. Þannig að þetta er ekkert svo bölvað.“

Er einhver sérstakur viðbúnaður hjá ykkur vegna veðursins? 

„Við erum bara að fara þessa vegi, eins og maður segir innanbæjar, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík og hreinsa það. Það verður engin þjónusta á Dynjandisheiðinni á meðan veðrið lætur svona,“ segir Guðmundur, og að lokum:

„Þetta er ekkert svo afleitt enda svolítið ófyriséð hvernig þetta hagar sér. Spáin er verri en veðrið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert