Eins og svart og hvítt

Guðmundur fagnar vel í kvöld.
Guðmundur fagnar vel í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var gríðarlega kaflaskiptur leikur,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 41:37-sigur á Brasilíu í lokaleik íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu í kvöld.

Ísland átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik, en sigldi fram úr með glæsilegum seinni hluta seinni hálfleiks.

„Þetta var eins og svart og hvítt. Við spiluðum lélegan varnarleik í fyrri hálfleik. Menn voru daufir og það vantaði þessa baráttu sem hefur einkennt okkur. Það er erfitt að rífa sig upp eftir Svíaleikinn. Sóknarleikurinn var heilt yfir góður, þótt við gerum okkur seka um að henda boltanum of oft frá okkur og því voru þeir fjórum mörkum yfir.

Guðmundur ræðir við Gunnar Magnússon í kvöld.
Guðmundur ræðir við Gunnar Magnússon í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vörnin var alls ekki góð og markvarslan var alls ekki nógu góð heldur. Við töluðum um áherslubreytingar varðandi vörnina. Það heppnaðist mjög vel og þá kom grimmara lið inn á völlinn. Það var meiri barátta í þessu og í raun allt annað lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Í sókninni var þetta aldrei vandamál. Sóknarleikurinn var stórkostlegur, en þetta var erfið fæðing,“ sagði Guðmundur og hélt áfram: 

„Það komu skrítnir dómar líka, eins og þegar Gísli fékk brottvísun þegar keyrt var í hann. Það voru erfið augnablik í þessum leik sem seinkaði því að við komumst nær þeim. Þetta var þolinmæðisvinna. Við fengum fleiri bolta varða í seinni og ég er ánægður með sigurinn.

Guðmundur var tilfinningaríkur á hliðarlínunni.
Guðmundur var tilfinningaríkur á hliðarlínunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er ekki auðvelt lið. Menn horfa á hin liðin og það er eins og þetta séu einhver skylduverkefni. Þetta er það ekki. Þetta er mjög gott og illviðráðanlegt lið. Svíar unnu þetta lið í lokin, því Palicka var að loka markinu. Þetta er líkamlega sterkt lið með sterka línumenn og góðar skyttur. Þetta var erfiður leikur,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert