Allt fór úrskeiðis í fyrri hálfleik hjá Hömrunum

Joe Willock (t.h.) fagnar eftir að hafa tryggt Newcastle United …
Joe Willock (t.h.) fagnar eftir að hafa tryggt Newcastle United sigur í dag. AFP

Newcastle United vann nauman 3:2 sigur gegn West Ham United í æsispennandi leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Fimm mínútna kafli í fyrri hálfleik, þar sem hræðileg mistök í tveimur mörkum og rautt spjald leit dagsins ljós, gerði Hömrunum afar erfitt fyrir.

Eftir talsvert jafnræði með liðunum framan af fór Newcastle í afdrifaríka sókn á 36. mínútu. Craig Dawson, sem var á gulu spjaldi, hamraði þá Joelinton niður en Kevin Friend dómari beitti hagnaðarreglunni þar sem Allan Saint-Maximin brunaði í átt að marki.

Frakkinn skæði var með varnarmenn West Ham fyrir framan sig, tók nokkrar gabbhreyfingar, skaut að marki og þar var Issa Diop að flækjast fyrir Lukasz Fabianski í marki West Ham sem endaði með því að Diop fékk boltann í sig þar sem hann lak svo í netið.

Brot Dawson var geymt en ekki gleymt og gaf Friend honum sitt annað gula spjald og þar með rautt. West Ham því skyndilega einu marki undir og einum manni færri.

Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Newcastle forystu sína. Matt Ritchie tók þá það sem virtist hættulítil hornspyrna, Fabianski gerði sig líklegan til að grípa boltann en missti hann inni í markteig. Joelinton stóð við hliðina á honum og þakkaði fyrir sig með því að koma boltanum yfir línuna úr auðveldasta mögulega færi.

Staðan því 2:0 í hálfleik fyrir Newcastle.

Hamrarnir gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn á 73. mínútu. Þar var að verki Diop, sem skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Jarrod Bowen, 2:1.

Einum færri jafnaði liðið svo metin. Á 77. mínútu var dæmd vítaspyrna eftir að VAR hafði bent Friend á að mögulega hafi Ciaran Clark handleikið knöttinn innan teigs. Friend kíkti sjálfur á skjáinn og mat það sem svo. Jesse Lingard steig á vítapunktinn og skoraði á 80. mínútu með þrumuskoti í stöngina og inn, 2:2.

Leikmenn Newcastle vöknuðu af værum blundi við þetta og tóku forystuna á ný á 83. mínútu þegar Ritchie gaf fyrir frá vinstri og Joe Willock, sem var nýkominn inn á sem varamaður, kom aðvífandi og skallaði boltann að marki, sem Fabianski varði í slána og inn, 3:2.

Þar við sat og Newcastle hafði að lokum nauman sigur í einstaklega fjörugum leik.

Sigurinn er afar kærkominn fyrir Newcastle í botnbaráttunni þar sem hann fleytir liðinu upp í 15. sæti, og er liðið nú níu stigum frá fallsæti.

Tapið kemur sér hins vegar afar illa fyrir West Ham sem er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og er sem stendur í fjórða sætinu.

Liverpool getur með sigri gegn Leeds United á mánudagskvöld jafnað West Ham að stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert