Íbúðamarkaður hefur róast mikið á undanförnum mánuðum. Til marks um það hefur árstaktur vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu farið úr 25% þegar mest var niður í 17,4%.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, telur að árstakturinn haldi áfram að lækka hratt, en í hagspá bankans frá því í nóvember er gert ráð fyrir nafnverðslækkunum á íbúðamarkaði á seinni hluta árs 2023.

„Við munum eflaust sjá vísitöluna halda áfram að sveiflast á milli lækkana og hækkana milli mánaða, og ég stend við þá spá að árstaktur vísitölu íbúðaverðs muni lækka tímabundið á þessu ári.“

Þó eru ekki allir á sama máli, en í hagspá Íslandsbanka og Landsbanka er ekki gert ráð fyrir að íbúðaverð lækki að nafnvirði á milli ára. Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, telur að íbúðamarkaðurinn muni finna jafnvægi á árinu og fylgja öðru verðlagi.

„Við erum ekki að búast við nafnverðslækkunum á ársgrundvelli, en íbúðaverð gæti alveg lækkað á milli mánaða eins og við höfum séð að undanförnu. Það þarf þó að passa að horfa ekki of mikið til einstakra mánaðamælinga þar sem oft er um fáa kaupsamninga að ræða, sérstaklega þegar kemur að sérbýli.“

Bergþóra segist ekki sjá fyrir sér að markaðurinn á Íslandi fylgi sömu þróun og í Svíþjóð og hinum nágrannalöndunum þar sem íbúðaverð hefur lækkað talsvert að nafnvirði. „Svíar eru næmari fyrir vaxtahækkunum en við sem erum vön hærra vaxtastigi. Íslendingar horfa miklu frekar á greiðslubyrðina og hugsa minna út í fasteignaverðið sjálft.“

Leiðrétting framundan

Erna bendir á að húsnæði á Íslandi sé dýrt og greiðslubyrðin í hlutfalli við laun og ráðstöfunartekjur orðin mikil, þrátt fyrir kólnun á markaðnum. Húsnæðisverð hafi hækkað langt umfram launavísitölu að undanförnu og ljóst að markaðurinn muni leitast við að leiðrétta það ójafnvægi.

„Greiðslubyrðin á nýjum lánum er í hæstu hæðum, bæði í hlutfalli við laun og ráðstöfunartekjur, sérstaklega þegar kemur að óverðtryggðum lánum. Hlutfallið þarf að einhverju leyti að koma niður aftur og ég tel að það muni að mestu leyti gerast í gegnum svipaðan farveg og átti sér stað eftir uppsveifluna árin 2016 til 2017. Þá hækkuðu aðrar stærðir eins og launavísitalan svipað og jafnvel umfram húsnæðisverð fremur en að íbúðaverð hafi beinlínis lækkað.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.