Óttast það að hætta að spila

Zlatan Ibrahimovic er enn í fullu fjöri þrátt fyrir að …
Zlatan Ibrahimovic er enn í fullu fjöri þrátt fyrir að vera orðinn fertugur. AFP

Knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic, leikmaður ítalska félagsins AC Milan, segist óttast þá óvissu sem fylgi því að láta af knattspyrnuiðkun og því vilji hann halda áfram að spila eins lengi og hann mögulega getur.

„Ég vil spila eins lengi og mögulegt er. Svo lengi sem ég finn fyrir adrenalíni mun ég halda áfram. Notum tækifærið og setjum pressu á Milan hérna að framlengja samning minn,“ sagði hinn fertugi Zlatan í ítalska spjallþættinum Che Tempo Che Fa í gærkvöldi.

„Ég vonast til þess að vera hjá Milan út ævina. Það eru enn hlutir sem mig langar til þess að áorka og ég vil vinna annan ítalskan meistaratitil.

Ég veit ekki hvað gerist hjá mér þegar fótboltinn líður undir lok þannig að ég er svolítið hræddur við að hætta. Við sjáum til en ég vil halda áfram að spila svo það verði engin eftirsjá þegar ég hætti,“ bætti hann við.

Núverandi samningur Zlatans rennur út næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert