Þórkatla sterkasti bakhjarlinn

Nokkrar félaga í slysavarnadeildinni Þórkötlu.
Nokkrar félaga í slysavarnadeildinni Þórkötlu. Ljósmynd/Þórkatla

Hús björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík er undir miklu álagi þessa dagana. Húsið gegnir enda hlutverki stjórnstöðvar, mötuneytis og bækistöðvar allan sólarhringinn og hefur gert frá upphafi eldgoss í Geldingadölum.

Bent er á þetta í færslu sveitarinnar á Facebook. Segir þar frá því að hún hafi fengist við ýmis verkefni frá því gosið hófst og verið að störfum á hverjum degi.

Sveitin að störfum í bækistöðvunum.
Sveitin að störfum í bækistöðvunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til að auka öryggi gesta

„Í vikunni var t.d. farið með vindmyllu upp að gosstöðinni til þess að knýja vefmyndavél, einnig var farið með þungan fjarskiptabúnað á sama stað og farið í ýmis verkefni á svæðinu fyrir almannavarnir. Þá höfum við áfram verið í vinnu við gönguleiðir, sett niður fleiri stikur, skilti og leiðbeiningar,“ segir í færslunni.

„Við viljum auðvitað vekja athygli á því að öll þessi vinna er til þess gerð að auka öryggi þeirra sem heimsækja svæðið þá daga sem hægt er að hafa opið. Stöðugar breytingar eru á svæðinu og því þurfum við að vera fljót að laga okkur að breytingunum og hingað til hefur það bara gengið nokkuð vel.“

Stöðug umferð björgunarsveitarmanna og lögreglu um húsið krefjist mikilla þrifa og í raun stanslausrar athygli vegna faraldursins.

„Allir hjálpast þó við að halda þessu í horfinu og því gengur þetta vel.“

Sleppa ekki út nema með fullan maga

Tekið er fram að slysavarnadeildin Þórkatla hafi verið allra sterkasti bakhjarl sveitarinnar alla tíð. Síðustu vikur hafi ekki verið nein undantekning þar á.

„Allir sem eiga leið í björgunarsveitarhúsið sleppa ekki út nema með fullan maga og helst nesti í poka og það er eiginlega alveg geggjað. Við getum sennilega aldrei þakkað þeim nóg fyrir allt sem þær hafa gert fyrir okkur undanfarið en við getum nýtt hvert tækifæri til þess að segja takk. Takk!“

Að lokum er fólk minnt á að fara varlega í kringum eldgosið, fylgjast vel með veðurspá og fara eftir leiðbeiningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert