Grunur um íkveikju í Úlfarsárdal

Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar eld í fjölbýlishúsi í Úlfarsárdal sem kom upp í gærkvöldi sem sakamál. Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri hjá lögreglunni að Vínlandsleið í Reykjavík í samtali við mbl.is 

„Við erum að rannsaka þetta og það er grunur um íkveikju,“ segir Elín. 

Hún segir að enginn sé í haldi og að engar yfirheyrslur hafi farið fram að svo stöddu. Hún segir að tæknideild hafi rannsakað vettvanginn en samtöl við vitni séu á herðum rannsóknardeildar. „Við erum að vinna úr þeim gögnum sem við erum að fá,“ segir Elín. 

Miklar skemmdir voru á íbúð sem er á fyrstu hæð hússins en fjölbýlishúsið er á fjórum hæðum. 

Víkingasveitin kom daginn áður

Íbúi í húsinu sem mbl.is ræddi við segir að nágranni í húsinu hafi orðið eldsins vart og bankað á nærliggjandi íbúðir. Flestir hafi komið sér út úr húsinu áður en slökkviliðið kom á staðinn. Eldvarnarkerfið í húsinu fór þó ekki af stað. 

Að sögn íbúans hefur nokkuð gengið á að undanförnu og m.a. hafi víkingasveit lögreglunnar verið í húsinu í fyrradag.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert