Blendnar tilfinningar

Bergur kemur í mark í dag, sæll eftir 48 klukkustunda …
Bergur kemur í mark í dag, sæll eftir 48 klukkustunda göngu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru blendnar tilfinningar,“ sagði Bergur Vilhjálmsson, slökkviliðsmaður, kafari og göngugarpur, þegar hann átti um hundrað metra ófarna í endamark sitt, líkamsræktarstöðina Ultraform í Grafarholti, laust fyrir klukkan 14 í dag, en eins og mbl.is greindi frá í gær gekk Bergur hundrað kílómetra á 48 klukkustundum og safnaði með því fé fyrir Píeta-samtökin.

Aðspurður kveður hann síðari sólarhringinn bara hafa verið „bras“ og þá þurfi að „vinna í hausnum“ á sér eins og hann kallar það. „Þá þarf maður bara að hugsa um eitt skref í einu og að gefast ekki upp. Fólkið sem ég er að gera þetta fyrir burðast með meira en ég og hefur kannski gert það í mörg ár, ég gekk bara í tvo daga,“ segir Bergur bjartri röddu og lætur afrekið hljóma eins og að smyrja brauðsneið.

„Það er fullt af fólki hérna að elta mig núna,“ svarar göngugarpurinn, spurður út í hvort múgur og margmenni bíði hans við endamarkið. Hann hefur nóg að gera af látunum í kringum hann að dæma og blaðamaður ákveður að hlífa honum. Nóg er nú samt.

Hver eru þá lokaorðin?

„Ég vil bara þakka fyrir mig, öllum sem hafa fylgst með og styrkt Píeta-samtökin, nú ætla ég bara að fá að njóta þess að koma hérna í mark, ég er bara einstaklega þakklátur,“ segir Bergur Vilhjálmsson göngugarpur að lokum eftir að hafa gengið um dimman dal í Hvalfirðinum í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka