Galli í öryggiskerfi í Strava varpaði ljósi á leynd svæði

Það eru ekki allar æfingaleiðir ætlaðar til opinberrar birtingar - …
Það eru ekki allar æfingaleiðir ætlaðar til opinberrar birtingar - ekki síst í nágrenni við leynilegar stöðvar ísraelskra yfirvalda. AFP

Galli í öryggiskerfi Strava-appsins gerði vafasömum einstaklingum kleift að bera kennsl á og fylgjast með ferðum starfsfólks sem vann á leynilegum stöðvum í Ísrael.

Frá þessu greinir FakeReporter í Ísrael, sem eru samtök sem berst gegn upplýsingaóreiðu á netinu. Samtökin komust að því að með því að hlaða inn gervihlaupaleiðum þá gæti notendi komist yfir þá sem höfðu einnig verið á ferð á umræddu svæði, þrátt fyrir að viðkomandi einstaklingar væru með stillt á hámarks öryggisstillingar. 

Hægt var að nálgast upplýsingar um um það bil 100 einstaklinga sem höfðu stundað æfingar við sex stöðvar.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að Strava hafi tekið á þessu vandamáli. Aftur á móti hafa ísraelskir embættismenn ekki viljað tjá sig um málið. 

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem mælingar Strava hafa valdið fjaðrafoki. Árið 2018 birti fyrirtækið svokallað æfingakort sem sýndi einnig æfingaleiðir fólk á herstöðvum víða um heim, m.a. á bandarískum herstöðvum í Sýrlandi.

Strava, sem er með höfuðstöðvar sínar í San Francisco í Bandaríkjunum, nýtur mikilla vinsælda, en notendur á heimsvísu eru um 95 milljónir talsins. En appið en notað í 195 löndum. Appið tekur saman gögn, þar á meðal GPS-hnit, úr farsímum fólks eða úr öðrum tölvubúnaði á borð við snjallúr, til að skrá niður æfingaleiðir notenda. Fólk getur hlaðið inn sínum hlaupa- og hjólatímum t.d. og borið þá saman við aðra notendur sem hafa farið sömu leiðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert