Miðpunktur bæjarins frá fyrsta degi

Leiðarljósið að hér við húsin yrði hlýlegt umhverfi sem tæki …
Leiðarljósið að hér við húsin yrði hlýlegt umhverfi sem tæki utan um gesti. Vignir Guðjónsson stýrir Sigtúni þróunarfélagi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Viðbrögð fólks sem hefur komið hingað í nýja miðbæinn á Selfossi síðustu daga eru sterk og jákvæð. Við lítum á þessa opnun sem eins konar generalprufu, eins og sagt er í leikhúsum. Hún heppnaðist vel. Ýmis frágangur á svæðinu er þó eftir og formleg opnun verður þegar nær dregur hausti,“ segir Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags. Félagið stendur að uppbyggingu í nýjum miðbæ á Selfossi; þangað hafa þúsundir lagt leið sína eftir að svæðið með fjölda nýrra húsa var opnað á laugardegi fyrir rúmri viku.

Í fyrsta áfanga miðbæjarverkefnins eru þrettán hús, öll byggð samkvæmt fyrirmyndum frá fyrri tíð. Þar ber hæst nýja mathöll í húsi sem er reist eftir svipsterkri teikningu að byggingu Mjólkurbús Flóamanna, sem var reist 1929 og rifin 1956. Þá hafa verið byggð þrjú timburhús, eftirlíkingar af byggingum sem forðum daga stóðu á Selfossi. Þetta eru timburhús með risþaki og kvistum; en mikill fjöldi slíkra bygginga var á fyrri hluta 20. aldarinnar reistur til dæmis í Flóanum. Slík mega teljast dæmigerð Suðurlandshús. Sömuleiðis er verið að leggja lokahönd á eftirgerð Friðriksgáfu; amtmannshússins á Möðruvöllum í Hörgárdal sem brann 1874.

Fjölmargar verslanir

Átta veitingastaðir, með ólíkar áherslur í matargerð, eru í nýja Mjólkurbúinu í miðbæ Selfoss. Fimm verslanir hafa þegar verið opnaðar; Penninn – Eymundsson, Tiger, Listasel, 1905 Blómahús og Mistilteinn. Fleiri verslanir og veitingastaðir verða opnuð á næstu vikum, svo sem Motivo, Kjörís og Joe & the Juice.

Mjólkurbú Flóamanna.
Mjólkurbú Flóamanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Alveg frá því fyrstu hugmyndir að þessu verkefni voru settar fram árið 2015 hefur almenningur átt þess kost að kynna sér málin og koma með athugasemdir,“ segir Vignir. „Eftir föngum höfum við tekið tillit til slíkra sjónarmiða. Mörgu sem var á upphaflegu teikningunum eða fyrirkomulagi var breytt eftir að framkvæmdir hófst. Leiðarljósið var alltaf að hér við reisuleg húsin yrði hlýlegt umhverfi sem tæki utan um gesti og gangandi og Brúartorg – miðpunktur svæðisins og mannlífsins – yrði vinsæll samkomustaður. Slíkt gekk eftir strax á fyrsta degi.“

Markaðsmál, ásýnd og stefna

Stofnendur Sigtúns þróunarfélags eru Leó Árnason og Guðjón Arngrímsson, lengi upplýsingafulltrúi Icelandair, og er Vignir sonur þess síðarnefnda. „Sjö eða átta ár eru síðan leiðir pabba og Leós lágu saman og fyrstu hugmyndir að verkefninu tóku að fæðast. Þá vorum við allir í öðrum störfum og unnum að framþróun þessa verkefnis í hjáverkum. Ég fór fyrst að skipta mér af málum sem snúa að markaðsmálum, ásýnd og stefnu. Eftir að tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins var samþykkt í kosningum meðal Árborgarbúa síðsumars 2018 kom ég inn í þetta verkefni af fullum krafti í aðalstarfi,“ segir Vignir.

Fimmtungur fermetra

Kostnaður við fyrsta áfanga framkvæmda í nýja miðbænum á Selfossi er áætlaður um 3,5 milljarðar króna. Á næstu mánuðum hefjast svo framkvæmdir við annan áfanga, en kostnaður við verkefnið í heild er áætlaður 10-12 milljarðar króna. „Byggðin sem nú er búið að reisa er um fimmtungur af heildarfjölda fermetra á svæðinu,“ segir Vignir. Áætlað er að hefja framkvæmdir við næsta áfanga í haust. Sama fyrirkomulag verður þar og í fyrri áfanga. Verslunar- og þjónusturými í eigu Sigtúns þróunarfélags verða á jarðhæð bygginga, en íbúðir sem verða seldar á efri hæðum.

Húsin sem til stendur að reisa á næstu misserum eru stærri og íburðarmeiri en þau sem nú eru komin. Þar má nefna Amtmannshúsið, eftir fyrirmynd byggingar sem stóð við Ingólfsstræti í Reykjavík og var rifin 1972. Þá verður reist hús með svip Hótels Íslands, sem stóð við Aðalstræti, og Glasgow, sem var stærsta bygging á Íslandi þegar hún var reist árið 1862.

Hressilegt áhlaup

Vignir segir að það hafi verið mikið afrek að ná að opna miðbæinn nýja á Selfossi aðra helgina í júlí. „Það þurfti hressilegt áhlaup til að þetta gengi. En allir lögðust á eitt, jafnt iðnaðarmenn á okkar vegum, veitingafólk, kaupmenn og svo starfsmenn ýmissa stofnana sem unnu hratt og vel við að ljúka öllum úttektum og veita leyfi fyrir opnun. Kunnum við þessu fólki öllu saman bestu þakkir fyrir,“ segir Vignir að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert