Amazon braut gegn starfsmönnum sem gagnrýndu fyrirtækið

Amazon segist ósammála niðurstöðunni.
Amazon segist ósammála niðurstöðunni. AFP

Bandaríski verslunarrisinn Amazon braut gegn lögum með því að reka tvo starfsmenn sem höfðu gagnrýnt umhverfisáhrif fyrirtækisins og öryggi í vöruhúsum þess. Bandarísk vinnumarkaðsyfirvöld hafa komist að þessari niðurstöðu.

Starfsmennirnir tveir voru reknir í apríl í fyrra, en þeir höfðu hjálpað til við stofnun þrýstihóps starfsmanna Amazon fyrir loftslagsréttlæti, Amazon Employees for Climate Justice.

Í yfirlýsingu frá Amazon segir fyrirtækið að það sé ósammála niðurstöðunni. „Við styðjum rétt starfsfólks til að gagnrýna aðbúnað á vinnustöðum, en í því felst ekki friðhelgi frá reglum okkar, sem allar eru löglegar,“ segir í yfirlýsingunni.

Fyrirtækið mun nú þurfa að semja við starfsmennina fyrrverandi um bótagreiðslur, en sæta ellegar málsókn.

Stofnunin National Labor Relations Board hefur til skoðunar tugi annarra mála um meintar ólöglegar aðgerðir fyrirtækisins í garð starfsmanna sinna, en fyrirtækið hefur orð á sér fyrir að taka hart á verkalýðsfélögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert