Hjón unnu 30 milljarða

Fyrir 30 milljarða má gera eitt og annað.
Fyrir 30 milljarða má gera eitt og annað. AFP

Bresk hjón duttu heldur betur í lukkupottinn þegar það var greint frá því í dag að þau hefðu unnið 185 milljónir punda, sem jafngildir um 30 milljörðum kr., í útdrætti í EuroMillions lottóinu nýverið. Enginn breskur lottóvinningshafi hefur unnið hærri fjárhæð. 

Hjónin Joe og Jess Thwaite, sem eru búsett í Gloucester, eru í skýjunum eftir að hafa unnið 184.262.899 pund, svo bókhaldið sé nákvæmt, á lottómiða sem var keyptur fyrr í þessum mánuði. Tölurnar voru valdar handahófskennt. 

„Þetta er geggjað en líka alveg óraunverulegt,“ sagði hinn 49 ára gamli Joe, sem starfar hjá fjarskiptafyrirtæki, á blaðamannafundi með eiginkonu sinni. Vinningurinn leit dagsins ljós 10. maí. 

„Ég leit á upphæðina. Ég setti svo símann niður en tók hann svo aftur upp og leit á upphæðina á nýjan leik.“

Joe, sem kveðst vera árrisull, náði að halda ró sinni þegar hann vaknaði um morguninn, en hann leyfði konunni sinni að sofa út áður en hann tilkynnti henni stóru tíðindin. 

„Hann sagði við mig: „Ég er með smá leyndarmál sem ég vil deila með þér“,“ sagði hin 44 ára gamla Jess við blaðamenn. Hún hélt fyrst að þetta væri einhverskonar grín og ætlaði ekki að trúa þessu þegar Joe greindi henni hvers kyns var. 

Hjónin hafa, eins og margir aðrir Bretar, staðið í ströngu fjárhagslega í ljósi verðhækkana, ekki síst á húsnæðis- og orkuverði. „Þó að þetta sé yndislegt og spennandi, þá er þetta gríðarlegur léttir,“ segja þau. 

Hjónin, sem eiga tvö börn á grunnskólaaldri, eru nú að íhuga að fara í ferðalag og jafnvel að kaupa nýjan bíl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert