Svarar ekki spurningum um notkun nýrra reglna

Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra. Ráðuneyti hennar hefur ekki …
Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra. Ráðuneyti hennar hefur ekki hug á að svara spurningum um notkun ráðherrans á nýlegri reglugerðarbreytingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Utanríkisráðuneytið hefur neitað að svara spurningum mbl.is um útgáfu vegabréfs til útlendings vegna sérstakra ástæðna þótt viðkomandi uppfylli ekki kröfu um að hann sé löglega búsettur á Íslandi. Ber ráðuneytið m.a. fyrir sig lög sem heimila takmörkun upplýsinga vegna almannahagsmuna, t.a.m. ef þau hafa að geyma upp­lýs­ing­ar um ör­yggi rík­is­ins eða varn­ar­mál. 

Reglugerðarbreyting sem heimilar utanríkisráðherra að gefa út vegabréf til útlendings ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, þrátt fyrir að viðkomandi sé ekki löglega búsettur á Íslandi, tók gildi 26. apríl síðastliðinn. Samhliða tók gildi breyting um að ráðherranum sé heimilt að fela sendiskrifstofum Íslands og kjörræðismönnum að gefa út neyðarvegabréf til útlendings ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og að fengnu samþykki Útlend­ingastofnunar.

mbl.is óskaði eftir upplýsingum um það hvort utanríkisráðherra hefði notað reglugerðarbreytinguna nýverið og þá hversu oft, hvers vegna og hversu langur gildistími þeirra hafi verið. Því var ekki svarað. 

„Utanríkisráðuneytið telur sér ekki fært að svara fyrirspurninni með vísan til 9. og 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  Að framansögðu er upplýsingabeiðni þinni synjað að hluta,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Ónefnt land gaf út ferðaáritun að beiðni Ragnars

Reglugerðarbreytingin hefur komist í umræðuna í kjölfar þess að fregnir bárust af því að tónlistarkonan Maria V. Alyok­hina, sem er í rússnesku hljómsveitinni og andófshópnum Pussy Riot, hafi flúið frá Rússlandi til Íslands nýverið. Í fréttaflutningi af málinu kom fram að ónefnt land hafi gefið út ferðaáritun fyrir Alyokhinu að beiðni vinar hennar, listamannsins Ragnars Kjartanssonar.

Áður hafa bæði forsætisráðherra og utanríkisráðuneytið neitað að tjá sig um málið.

Ekki var spurst sérstaklega fyrir um mál Alyokhinu og kom fyrirspurnin jafnframt ekki inn á einstök mál heldur var fremur almenns eðlis.

Takmarkanir vegna einkahagsmuna 

Níunda greinin sem utanríkisráðuneytið vísar til fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. 

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á,“ segir m.a. í þeirri grein. 

Heimilt að takmarka aðgang ef upplýsingar varða öryggi ríkisins

Tíunda grein upplýsingalaganna, sem utanríkisráðuneytið ber einnig fyrir sig, snýr að takmörkunum á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna en heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, t.a.m. ef þau hafa að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert