Skotið á mótmælendur í Súdan

Súdanski herinn skaut á mótmælendur. Sjö hið minnsta hafa látist.
Súdanski herinn skaut á mótmælendur. Sjö hið minnsta hafa látist. AFP

Hið minnsta sjö hafa látist og um 140 særst eftir að hermenn skutu á mannfjölda sem mótmælti valdatöku hersins í Súdan.

BBC greinir frá.

Mótmælendur héldu út á götur eftir að herinn leysti upp borgaralega stjórn, handtóku stjórnmálaleiðtoga og lýstu yfir neyðarástandi í dag.

Sagt er að hermenn hafi farið hús úr húsi í höfuðborginni Khartoum og handtekið mótmælendur og skipuleggjendur mótmæla. Valdaránið hefur verið fordæmt um allan heim og hafa Bandaríkin fryst 700 milljóna dala framlög til ríkisins.

Mótmælt í Súdan í dag.
Mótmælt í Súdan í dag. AFP

Leiðtogar í ríkisstjórn og leiðtogar í hernum hafa átt í deilum frá því að Omar al-Bashir, sem lengi var þjóðarleiðtogi, var steypt af stóli fyrir tveimur árum.

Þegar rökkva tók í kvöld var mikill fjöldi mótmælenda á götum Khartoum – og fleiri borga – sem kröfðust þess að borgaraleg stjórn sæti áfram, að því er Mohamed Osman hjá BBC Arabic greinir frá í höfuðborginni.

Einn særður mótmælandi sagði blaðamönnum BBC að hann hefði verið skotinn í fótinn af hernum fyrir utan höfuðstöðvar hersins, á meðan annar maður lýsti því að herinn hefði fyrst skotið handsprengjum, síðan hleypt af byssum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert