Bólusetningar hefjast í Ástralíu

Forsætisráðherrann Scott Morrison ásamt hinni 84 ára Jane Malysiak, sem …
Forsætisráðherrann Scott Morrison ásamt hinni 84 ára Jane Malysiak, sem fyrst var bólusett þar syðra. AFP

Bólusetningar hófust um helgina í Ástralíu en í dag byrjar bólusetningarátakið þar fyrir alvöru. 

Fyrstir í röðinni eru þeir sem mesta hættu eiga á að sýkjast, þar á meðal starfsfólk farsóttarhúsa og sóttvarnarhótela, framlínustarfsfólk í heilbrigðisgeiranum og starfsfólk flugvalla og hafna í landinu. Alls um 1,4 milljónir manna.

Hassan Vally, faraldsfræðingur og aðstoðarprófessor við háskólann La Trobe í Viktoríufylki, segir í samtali við Guardian að með þessu skrefi sé Ástralía komin á síðasta stig faraldursins.

„Þegar við komum bóluefninu út þá byrjum við að minnka hættuna sem samfélaginu stafar af veirunni, sem þýðir að við getum treyst okkur betur til að færast nær lífinu eftir faraldurinn.“

Alls hafa rúmlega 900 manns látið lífið sökum veirunnar í landinu, sem gera um 36 andlát fyrir hverja milljón íbúa. Þá hafa rúmlega 25 þúsund tilfelli greinst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert