Atvinnuleysi eitur í beinum ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Við búum í nýjum veruleika sem er ógnvekjandi og það reynir á okkur sem einstaklinga, sem hreyfingu og sem samfélag. Atvinnuleysi er eitur í okkar beinum og í gegnum tíðina höfum við lagt mikið undir í baráttunni fyrir að verja störf og afkomu fólks,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, á rafrænu þingi sambandsins í morgun.

Hún sagði að störfin væru hins vegar horfin í bili og hátt í 20 þúsund manns án atvinu hér á landi.

Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og okkar stóra verkefni er að takast á við það, að knýja á um vinnumarkaðsaðgerðir sem mæta þessum vanda og tryggja afkomu fólks. Að auki hefur fjöldinn allur misst tekjur vegna minnkandi starfshlutfalls, minni yfirvinnu og hlutabóta og annarra þátta,“ sagði Drífa.

Hún benti á að í vor hafi verkalýðshreyfingin hlutast við til um aðgerðir til að minnka skaðann. Þá hafi þau haldið að bráðaúrræðin þyrftu að dekka styttri tíma og ferðaþjónustan myndi taka fljótt og vel við sér. „Nú vitum við betur og þetta verður langhlaup en ekki spretthlaup.“

Drífa sagði að það hefði ekki farið fram hjá neinum að atvinnurekendur hafi þrýst á um launalækkanir eða kjaraskerðingar með vísan til ástandsins. Sjónarmið þeirra hefði fengið hljómgrunn í fjölmiðlum og stjórnmálum og víðar í samfélaginu undir þeim formerkjum að þegar þrengi að þá verði allir að gefa eitthvað eftir.

„Við því er tvennt að segja: annars vegar það að launafólk hefur þegar tekið gríðarlegan skell í þessari kreppu í gegnum atvinnuleysi og kjaraskerðingar og hins vegar það að aðhaldsstefna er ekki aðeins gagnslaus á krepputímum, hún er beinlínis skaðleg. Það er ekkert sem rennir stoðum undir þá kenningu að ískaldar launafrystingar þvert á línuna séu rétta leiðin út úr kreppunni, þvert á móti,“ sagði Drífa.

Þessi kreppa verður ekki til að auka ójöfnuð – við munum ekki líða það að skútunni sé siglt eftir úreltum hugmyndir sem hafa skaðað vinnandi fólk um heim allan og mulið undir fjármálaöflin. Við bjóðum lausnir sem felast í að tryggja afkomu og lífsgæði allra en ekki fárra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert