Ungir strákar í lykilhlutverki í dag

Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV.
Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var mjög ánægður með sigur sinna manna á Selfyssingum í dag en liðin áttust við í Olísdeild karla. Lokatölur voru 32:25 en sigur Eyjamanna var aldrei í hættu og var liðið einungis undir í stöðunni 0:1.

„Ég er mjög sáttur, þetta var á móti frábæru liði, mannskapurinn sem Selfoss er með er mjög góður. Það eru auðvitað margir að koma inn eftir meiðsli hjá þeim og þurfa tíma, þetta er sterkur hópur sem við erum að leggja að velli. Varnarleikurinn skóp sigurinn í þessu, við náðum að láta þá hafa vel fyrir hlutunum og fengum nokkur ódýr hraðaupphlaupsmörk í staðinn.“

„Vörnin var þétt og hefði ég jafnvel viljað fá nokkra ruðningsdóma sem urðu í staðinn vítadómar. Varnarleikurinn var það sem við lögðum mikla áherslu á, í vikunni, eftir Haukaleikinn. Ég verð líka að hrósa þessum ungu peyjum sem eru inná, Arnór, Andrés og Elmar, eru allt ungir strákar að spila lykilhlutverk í leiknum í dag,“ sagði Erlingur en hann er faðir Elmars sem lék frábærlega í dag, ásamt hinum, og skoraði fjögur mörk ásamt því leggja upp tvö til viðbótar og fiska víti.

Erlingur viðurkennir að liðið hafi pælt mest í vörninni í vikunni og það hafi skilað sér.

„Við vorum eiginlega með hugann við það, við erum búnir að skora nóg af mörkum og sóknarleikurinn hefur verið mjög góður. Við söknuðum einnig Dags í dag og vildum hvíla hann aðeins. Þetta eru smávægileg meiðsli hjá honum og við eigum hann vonandi ferskan á miðvikudaginn.“

Hvernig horfir deildin við Erlingi, hún hefur skipst í nokkra hluta.

„Ég veit eiginlega ekki hvernig staðan er í þessu, það er enginn að spila á sama degi svo maður veit stundum ekkert hvort það sé leikur eða ekki. Við erum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfa, ég er nokkuð sáttur með hvar við stöndum akkúrat núna. Við viljum samt halda áfram að þróast, bæta okkar leik og fá fleiri inn í þetta.“

Eyjamenn eru með öðruvísi sóknarlið í ár heldur en á síðustu leiktíð en liðið hefur þó leikið vel í upphafi móts.

„Við erum einnig með Danjál, Færeyinginn og Arnór sem er orðinn eldri og sýndi í dag að hann vill fá hlutverk. Hann spilaði mjög vel í dag, við erum með tvær öflugar örvhentar skyttur sem hjálpar okkur mikið í okkar leik.“

Eyjamenn fóru í 7 á 6 í dag, er það eitthvað sem þeir munu nýta meira en á síðustu leiktíð?

„Við gerðum það í dag á móti 5-1 vörninni, við þurfum að vera áfram sókndjarfir og það skilar okkur frekar sigri heldur en að vera að verja eitthvað,“ sagði Erlingur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert