Raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var neikvæð um tæplega 12% árið 2022 samkvæmt áætlun Landssamtaka lífeyrissjóða. Er þar miðað við vegið meðaltal ávöxtunar alls eignasafns sjóðanna að teknu tilliti til verðbólgu. Endanlegar ávöxtunartölur verða birtar þegar ársreikningar sjóðanna liggja fyrir.

„Eftir afar góða ávöxtun eignasafns lífeyrissjóða undanfarin ár varð viðsnúningur á síðasta ári. Árið einkenndist af óróleika á alþjóðlegum mörkuðum og aukinni verðbólgu innanlands sem og erlendis,“ segir í tilkynningu Landssamtakanna.

Þau benda á að innlend verðbólga ársins var 9,6% og bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir gáfu eftir, m.a. vegna stríðsástandsins í Úkraínu og orkumála í Evrópu.

4,6% meðalraunávöxtun á síðustu 10 árum

Landssamtökin segja að þrátt fyrir neikvæða ávöxtun ársins 2022 er 10 ára meðalraunávöxtun sjóðanna um 4,6% og 5 ára um 4,0% „sem er vel umfram 3,5% ávöxtunarviðmið skuldbindinga“.

„Lífeyrissjóðir horfa til langtímaávöxtunar við fjárfestingar enda eru skuldbindingar þeirra til langs tíma.“