Konan sem villtist við Helgafell fundin

Helgafell við Hafnarfjörð.
Helgafell við Hafnarfjörð. mbl.is/Sigurður Bogi

Óskað var eftir aðstoð bjögunarsveita um klukkan 18:30 í kvöld eftir að kona sem var á göngu við Helgafell í Hafnarfirði hringdi á neyðarlínuna. Konan hafði villst eftir að hafa gengið á fjallið. 

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg að konan sé ekki slösuð og þokkalega vel klædd.  

Um 20 mínútum eftir að útkall barst var björgunarsveitarmaður komin á vettvang og hóf leit. Búið er að ná sambandi aftur við konuna og telja björgunarsveitarmenn sig vita hvar hún er stödd. Sótt er að þeim stað úr tveimur áttum.

Uppfært klukkan 21:30: 

Samkvæmt Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, lauk aðgerðum björgunarsveita skömmu fyrir klukkan 8 í kvöld. Ástand konunnar var þokkalegt miðað við aðstæður þegar hún fannst. Henni var komið áleiðis til byggða í bifreið björgunarsveitarinnar. Skamman tíma tók að staðsetja konuna og aðgerðin gekk vel fyrir sig að sögn Davíðs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert