Rappari og skotleikur í samstarf

Rapparinn Kid LAROI heldur tónleika í janúar.
Rapparinn Kid LAROI heldur tónleika í janúar. Skjáskot/Fortnite

Framleiðandi leiksins Fortnite, Epic Games, tilkynnti á dögunum nýtt samstarf við tónlistarmann. Að þessu sinni er það ástralski rapparinn Kid LAROI.

Árið 2022 hélt Fortnite fjóra tónleika í beinni í leiknum og gátu spilarar hlustað á tónleika, unnið verðlaun og keypt hluti tengda tónlistarmönnunum.

Kid LAROI er fyrsti tónlistarmaðurinn sem mun koma fram árið 2023 og mun hann halda tónleika á nýrri eyju sem ber nafnið „The Kid Laroi's Wild Dreams Island“ þar sem spilarar geta hlustað á hann rappa og hlaupið um.

Eftir tónleikana verður teiti á eyjunni og því verður mikil skemmtun í boði. Einnig geta spilarar keppt til verðlauna í bikarkeppni Kid LAROI.

Hver er Kid LAROI?

Tónlistarmaðurinn Kid LAROI fæddist í Sydney í Ástralíu og hefur greint frá æsku sinni í viðtölum sem var oft á tímum erfið. Hann missti föður sinn árið 2015 en hann var skotinn til bana.

Kid LAROI skrifaði undir plötusamning við Sony árið 2017 þegar hann var einungis 14 ára gamall og ári síðar, 2018, var hann fenginn til þess að koma fram á tónleikaferðalagi rapparans Juice WRLD sem skaut Kid LAROI á stjörnuhimininn.

Eftir það flutti Kid LAROI til Bandaríkjanna til þess að fylgja Juice WRLD og læra af honum en ári síðar lést Juice WRLD.

Eitt frægasta lag Kid LAROI er lag sem hann gaf út með söngvaranum Justin Bieber en þegar þessi grein er rituð er lagið með yfir 2 milljarða spilana á Spotify.

Hvenær hefst viðburðurinn?

Viðburðurinn fer fram 27. janúar og hefjast tónleikarnir klukkan 23.00 að íslenskum tíma og er búið að gefa út lagalista fyrir tónleikana en auk þess mun Kid LAROI frumsýna þrjú óútgefin lög.

Spilarar komast á eyjuna af aðalskjá leiksins en einnig með því að slá inn kóðann: 2601-0606-9081.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert