Maxwell hafi útvegað Epstein ungar stúlkur

Ljósmynd sem sýnir þau Epstein og Maxwell saman.
Ljósmynd sem sýnir þau Epstein og Maxwell saman. AFP

Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærasta og samstarfskona barnaníðingsins Jeffrey Epstein, mætti í réttarsal í New York í Bandaríkjunum í dag þar sem hún er m.a. sökuð um mansal. Ákæruvaldið heldur því fram að hún og Epstein hafi verið vitorðsmenn og að hún hafi séð um að útvega Epstein ungar stúlkur sem hann braut síðan gegn kynferðislega.

Maxwell, sem er 59 ára gamall Breti, neitar sök og verjendur hennar halda því fram að verið sé að nota hana sem blóraböggul fyrir glæpi sem Epstein framdi, en hann lést í fangelsi árið 2019.

Maxwell hefur setið á bak við lás og slá í Bandaríkjunum frá því hún var handtekin í fyrra. Mikill áhugi er á réttarhöldunum sem munu standa yfir í sex vikur. Alls sitja 12 manns í kviðdómi sem er gert að kveða upp úr um sekt hennar eða sakleysi.

Það eru ekki allir á því að Epstein hafi framið …
Það eru ekki allir á því að Epstein hafi framið sjálfsvíg í fangelsi eins og yfirvöld hafa haldið fram. AFP

Lögmenn hennar, sem og ættingjar, hafa margsinnið kvartað undan aðbúnaði hennar í fangelsinu. Þá hefur lögfræðiteymi hennar gert nokkrar tilraunir til að fá hana lausa úr fangelsi gegn greiðslu tryggingar en án árangurs.

Epstein lést í fangelsi þann 10. ágúst 2019 er hann beið eftir að réttarhöld í hans máli hæfust, en hann var sakaður um mansal og kynferðisbrot. Yfirvöld úrskurðuðu að Epstein hefði tekið eigið líf í fangelsinu.

Maxwell er dóttir fyrrverandi fjölmiðlamógúlsins Robert Maxwells.

Dómshúsið í New York þar sem réttað er í máli …
Dómshúsið í New York þar sem réttað er í máli Maxwell. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert