Enn eitt útgöngubannið sett á í Kína

Frá sýnatöku í kínversku borginni Anyang í Henan-héraði á laugardaginn …
Frá sýnatöku í kínversku borginni Anyang í Henan-héraði á laugardaginn sl. AFP

Útgöngubann var sett á í kínversku borginni Anyang í Henan-héraði í gær. Er þetta í þriðja sinn sem útgöngubann er sett á í landinu í yfirstandandi bylgju kórónuveirufaraldursins.

Nærri 5,5 milljón manns hafa látið lífið vegna veirunnar víða um heiminn síðan fyrsta kórónuveirusmitið greindist í Kína 11. janúar 2020 og hefur tilkoma Ómíkron-afbrigðis veirunnar neytt ríki heimsins til að grípa til hertra sóttvarnaraðgerða.

Þótt kínversk stjórnvöld hafi reynt að hefta útbreiðslu veirunnar með samblöndu af útgöngubanni, lokun landamæra og víðtækum skimunum í upphafi faraldursins virðast hópsmit enn blossa upp í stórborgum landsins, aðeins fáeinum vikum áður en vetrarólympíuleikarnir í Peking eiga að fara fram, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Samkvæmt kínverskum fréttamiðlum var þeim fimm milljón manns sem búa í borginni Anyang meinað frá því að yfirgefa heimili sín og að aka á vegum borgarinnar í gær.

Útgöngubann var einnig sett á í borginni Yuzhou í Henan-héraði í síðustu viku en þar búa um milljón manns. Þá hefur útgöngubann sömuleiðis verið í gildi í hinni 13 milljón manna borg X'ian síðastliðnar þrjár vikur.

Aðeins 110 ný tilfelli af covid-smitum greindust í Kína í dag, sem er afar lítið miðað við þau hundruð þúsunda tilfella sem eru að greinast daglega í löndum eins og Bandaríkjunum.

Þótt fá smit séu að greinast í Kína þessa dagana hafa þarlend stjórnvöld áhyggjur af stöðunni í aðdraganda vetrarólympíuleikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka