Sport

Skoraði óvart og „klúðraði“ leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Calvin Ridley fagnar Todd Gurley eftir snertimarkið en Gurley gerir sér grein fyrir því að hann gerði mistök.
Calvin Ridley fagnar Todd Gurley eftir snertimarkið en Gurley gerir sér grein fyrir því að hann gerði mistök. Getty/ Kevin C. Cox

Er hægt að „klúðra“ leik með því að skora? Jú það er hægt í NFL-deildinni og gerðist einmitt í leik Atlanta Falcons og Detriot Lions í gær.

Atlanta Falcons liðið á þessu tímabili gæti gefið út handbók yfir því hvernig á að klúðra leikjum í ameríska fótboltanum og enn einn kaflinn bættist við í gær.

Hvað eftir annað hafa Fálkarnir frá Atlanta misst niður yfirburðarforystu og tapað á lokasekúndum og svo var einnig í gær.

Detriot Lions tryggði sér 23-22 sigur á Atlanta Falcons með því að skora snertimark á síðustu sekúndu leiksins eftir magnaða sókn upp allan völlinn.

Atlanta Falcons var í lykilstöðu í lokasókn sinni og átti möguleika að tryggja sér endurnýjun þegar 72 sekúndur voru eftir af leiknum.

Hlauparinn Todd Gurley var búinn að tryggja sér endurnýjun en skoraði „óvart“ snertimark. Atlanta Falcons komst þar með í 22-16 en það var rúm mínúta eftir.

Gurley reyndi að hætta við að skora en tókst það ekki. Ekki oft sem maður sér sóknarlið ekki vilja fá snertimark dæmt gilt. Það má sjá þetta hér fyrir ofan.

Það réttasta í stöðunni fyrir Gurley hefði verið að skora ekki og þá hefði Atlanta Falcons liðið getað eytt miklu meira af klukkunni og skorað síðan vallarmark sem hefði nægt liðinu til að vinna.

Matthew Stafford, leikstjórnandi Detroit Lions, fékk hins vegar rúma mínútu til að fara með liðið sitt upp allan völlinn. Það tókst og hann fann loksins innherjann T. J. Hockenson á síðustu sekúndunni og tryggði Ljónunum sigurinn. Það má sjá sigursnertimarkið hér fyrir neðan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×