„Fyrir mér er þetta ofboðsleg sorg“

Hermann Valsson í salnum þar sem atvikið átti sér stað.
Hermann Valsson í salnum þar sem atvikið átti sér stað. mbl.is/Arnþór Birkisson

Alþjóðasambandið í júdó hefur sett bann gegn notkun svokallaðra henginga (shime-waza) á mótum í flokkum iðkenda sem eru eldri en 60 ára. Hermann Valsson, 65 ára gamall maður sem fór illa út úr slíku hengingartaki, segir aðspurður að gott sé að skýrar línur hafi verið settar fram í þessum efnum. Hann finni þó aðallega til sorgar. 

Í umfjöllun um breyttar reglur á vef breska júdósambandsins segir að ef iðkendur sem náð hafa 60 ára aldri kjósi að keppa í flokkum með yngri iðkendum þar sem henging er leyfð geri þeir það algjörlega á eigin ábyrgð. Hið sama má segja um eldri iðkendur sem kjósa að taka þátt í hengingum á æfingum. Er ástæðan fyrir þessum nýju reglum sögð læknisfræðileg.

Fjöldi sem hafi farið illa út úr hengingu

Hermann sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr á árinu að hann hafi verið látinn liggja meðvitundarlaus í 48 mínútur á júdóæfingu eftir að hann var beittur hengingartaki. Við komuna á sjúkrahús var hann greindur með heilablóðfall. 

Glímufélagið Ármann hafnaði síðar lýsingu Hermanns á atburðum alfarið en Hermann stendur við lýsinguna og lagði í byrjun árs fram kæru. 

„Þetta er sorg,“ segir Hermann spurður um það hvernig honum líði með breyttar reglur fyrir eldri iðkendur. Þegar hann fór að skoða afleiðingar henginga fyrir þá nánar komst hann að því að umræðan um neikvæðar afleiðingar hafi verið í gangi lengi. Því telur hann að þjálfarinn hans hefði átt að vita af hættunni sem í hengingu fyrir mann á hans aldri fælist. Eftir því sem Hermann kemst næst hafa 120 alþjóðlegir júdómenn fengið heilablóðfall og/eða látist eftir hengingu. 

„Það vita allir sem eru í svona bardagaíþróttum að þú getur misst meðvitund en að þessi ofboðslegi fjöldi hafi fengið heilablóðfall og síðan dáið hafði aldrei hvarflað að manni og ekki verið innan umræðunnar í þau 22 ár sem ég er búinn að vera.“

Júdó standi fyrir vináttu, ekki grimmd

Hermann sendi alþjóðlega júdósambandinu fyrirspurn um hengingu og um þann þjálfara sem var við störf þegar umrætt atvik átti sér stað. Hann hefur ekki fengið bein svör við því. 

„Svarið kemur síðan í þessari breytingu,“ segir Hermann og vísar þá til reglubreytinganna. 

Heilablóðfallið hafði veruleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu Hermanns sem hafði stundað júdó í rúma tvo áratugi þegar atvikið átti sér stað. Hann er þó allur að koma til og þakkar hann starfsfólki í endurhæfingu á Grensási sérstaklega fyrir það. „Þau hafa unnið kraftaverk,“ segir hann.

Hermann segist hafa verið algjörlega útilokaður frá júdósamfélaginu eftir atvikið. Það sé honum erfitt þar sem hann hafi litið á samfélagið sem sína fjölskyldu. 

Hefur þessi barátta þín verið þess virði?

„Ég hét því að ég skyldi gera allt sem ég gæti gert svo þetta kæmi ekki fyrir aftur,“ segir Hermann um það. 

„Fyrir mig er þetta ekki neinn sigur, fyrir mér er þetta ofboðsleg sorg. Grunnatriðið í júdó er ekki grimmd. Júdó stendur fyrir vináttu,“ ítrekar Hermann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert