fbpx
Föstudagur 17.maí 2024
Fréttir

Örlagastund Önnu Lindu á Arnarnesbrú – „Bláókunnug manneskja ákvað að fá sér í glas og keyra undir áhrifum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 27. nóvember 2021 09:00

Anna Linda Bjarnadóttir. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tuttugasti og áttundi nóvember árið 2020 var mikill örlagadagur í lífi Önnu Lindu Bjarnadóttur lögmanns en þá lenti hún í umferðarslysi á Arnarnesbrúnni. Atvikið átti sér stað á umferðarljósum við umdeild gatnamót, en bíl var ekið á fullri ferð yfir á rauðu ljósi og lenti hann inni í hliðinni á bíl Önnu Lindu. Anna Linda lýsir þessu skelfilega atviki svo í DV-hlaðvarpinu:

„Ég hafði skroppið til Reykjavíkur niður í vinnu og var á leiðinni heim rétt fyrir kvöldmatarleyti, klukkan sjö. Ég fer þarna upp á brúnna, beygi til vinstri og svo er grænt ljós og ég held bara áfram, en ég hafði hingað til getað treyst því að bifreiðar úr gagnstæðri átt stöðvist á rauðu ljósi. Nema hvað, þegar ég er komin yfir umferðarljósin sé ég gráan lítinn sportbíl við hliðina á mér og andartaki síðar skellur hann á mig og þó svo ég hafi verið á 2,5 tonna jeppa tókst mér ekki að halda honum á veginum og hann kastast þarna upp á umferðareyjuna þar sem umferðarljósið var og klessti niður tvennar öryggisstálgrindur áður en bifreiðin stöðvaðist.“

Anna Linda segir frá skelfilegum afleiðingum slyssins fyrir heilsu hennar, erfiðri leið hennar til bata sem þó miðar í rétta átt, slysatíðni á Arnarnesbrúnni og væntanlegum umbótum þar, ásamt ýmsu fleiru athyglisverðu í DV-hlaðvarpinu sem hlýða má á í spilaranum hér fyrir neðan.

video
play-sharp-fill

Ökumaðurinn sem olli slysinu var undir áhrifum áfengis. Um er að ræða konu á besta aldri, í góðum efnum og sterkri þjóðfélagsstöðu. Var konan handtekin á staðnum og færð inn í lögreglubíl. Hún var svipt ökuleyfi í nokkur ár og og þurfti að greiða nokkur hundruð þúsund króna sekt. Anna Linda hefur síðastliðið ár kynnt sér ítarlega refsidóma í málum sem varða akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna og lyfja. Kemur það henni á óvart hvað sakborningar eru fjölbreyttur þjóðfélagshópur en margir gefa sér að slík brot einskorðist við unga karlmann. Svo er ekki.

Á sunnudagskvöld kl. 19 ætlar Anna Linda að tendra kerti á Arnarnesbrúnni fyrir hvert umferðarslys sem hefur orðið á þessum hættulegu gatnamótum. Á því augnabliki verður liðið nákvæmlega eitt ár frá örlagaatburðinum.

Líkaminn minnir á atvikið alla daga

Anna Linda hlaut mikla áverka vegna slyssins, um tíma var hún hætt að geta gengið og alla daga minnir líkaminn hana á atvikið með verkjum. Það er erfitt að víkja erfiðri minningu til hliðar í huganum þegar verkirnir minna sífellt á það sem gerðist. Leiðin til bata er grýtt en það miðar áfram:

„Ég bar enga ábyrgð á þessu atviki og ég gat ekki sætt mig við  að glíma við ævilöng örkuml vegna þess að bláókunnug manneskja ákvað að fá sér í glas og aka undir áhrifum. Þess vegna fór ég að lesa, ég fór að stúdera hrygginn, ég lærði númerin á hryggjaliðunum og lærði hvaða taugar lægju að hverjum hryggjarlið og hvert verkir frá þeim leiddu. Það hjálpaði mér mjög mikið vegna þess að þá gat ég farið að leita mér að meðferðarúrræðum,“ segir Anna Linda en í DV-hlaðvarpinu lýsir hún því hvernig leit hennar að bata leiddi hana á vit kírópraktora. Hún segist skammast sín fyrir að hafa litið áður á þá stétt sem skottulækna því kírópraktorinn hennar hefur veitt henni ómetanlega hjálp. Hann bauð strax upp á stafræna myndatöku og fann orsök fyrir bókstaflega hverjum verk sem þjáði hana.

Skökk mjaðmagrind, mein sem læknar fundu ekki, olli því að Anna Linda gat um tíma ekki gengið lengur. Segir hún að meðferð hjá kírópraktor hafi skipt sköpum fyrir sig og valdið því að hún er þrátt fyrir allt á miklu betri stað núna heilsufarslega en síðastliðið sumar.

Anna Linda lýsir líka sálrænum áhrifum af slysinu, áfallastreituröskun og óttanum við að aka bíl, sérstaklega á þeim slóðum þar sem slysið varð.

Tendrar 105 kerti

„Ég lít á þessi gatnamót sem dauðagildru þegar umferðarljósin eru ekki virt og það þarf ekki alltaf ölvun til, ég hef séð fólk keyra þarna yfir á rauðu ljósi, að öllum líkindum vegna þess að það tekur ekki eftir umferðarljósunum,“ segir Anna Linda og getur ekki varist þeirri skelfilegu tilhugsun hvað hefði getað gerst ef hún hafði verið á léttari bíl þegar ekið var á hana eða ef bíllinn sem ekið var á hana hefði verið þyngri, þá hefði hennar bíll getað kastast yfir vegahandriðið og niður á stofnbrautina.

Í DV-hlaðvarpinu segir Anna Linda frá þeim gleðitíðindum að úrbætur eru ráðgerðar á þessum stað sem munu draga mjög úr slysahættu og lýsir hún því hvaða aðgerðir ráðist verður í.

Anna Linda fékk þær upplýsingar frá Vegagerðinni að 105 umferðarslys hafi orðið á þessum stað og yfir 200 bílar orðið þar fyrir tjóni. Upplýsingar um líkamsskaða eru óljósar en engin dauðsföll hafa orðið enn, sem betur fer.

Á sunnudagskvöld kl. 19 ætlar Anna Linda að tendra 105 kerti á Arnarnesbrúnni til að minnast þeirra sem hafa þurft að þola tjón í slysum á þessum stað og minnast þess að nákvæmlega eitt ár verður þá liðið frá því hún lenti í þessu skelfilega slysi.

Þeir sem hafa áhuga á að vera viðstaddir athöfnina geta sent tölvupóst á netfangið alb@lexista.is en vegna samkomutakmarkana geta aðeins 50 manns tekið þátt í athöfninni. Anna Linda hvetur þá sem heima sitja til að kveikja á kertum kl. 19 á sunnudagskvöld af virðingu við þá sem verða fyrir tjóni í umferðarslysum og til stuðnings auknu umferðaröryggi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi

Sigmundur segir skemmdarverk framið á íslenskri tungu og nefnir fjölmörg dæmi
Fréttir
Í gær

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“

Einar Ágúst sneri við blaðinu eftir símtal frá þekktum handrukkara – „Þitt hjartalag á ekki heima hérna“
Fréttir
Í gær

Kynntu nýtt borgarhverfi við Kringluna

Kynntu nýtt borgarhverfi við Kringluna
Fréttir
Í gær

169 einstaklingar sem finnast ekki

169 einstaklingar sem finnast ekki
Fréttir
Í gær

Þetta er fanginn sem var frelsaður – Móðir hans í sjokki

Þetta er fanginn sem var frelsaður – Móðir hans í sjokki
Hide picture