Orkumál og náttúruvernd fari illa saman

Stjórn Landverndar harmar það undanhald sem ríkisstjórnin skipuleggur í verndun …
Stjórn Landverndar harmar það undanhald sem ríkisstjórnin skipuleggur í verndun Hálendis Íslands. mbl.is/RAX

Stjórn Landverndar óttast þá ákvörðun að fella orkumál og náttúrvernd undir sama ráðuneyti. Það er nauðsynlegt að náttúrvernd eigi talsmann við ríkisstjórnarborðið. Með því að slá þessum málaflokkum saman er mikil hætta á að fjársterkir aðilar sem sækjast eftir að virkja og spilla íslenskri náttúru fái mun meira vægi í ákvarðanatöku.

Náttúruvernd og loftslagsmál verða að skoðast saman og erfitt verður fyrir einn ráðherra að gæta hagsmuna umhverfisins um leið og hann er ráðherra orkumála.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Landverndar vegna sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og VG.

Jafnvægi í stjórnsýslu raskað

Mikilvægu jafnvægi í stjórnsýslu er raskað með þessari ákvörðun og hvetur Landvernd ríkisstjórnina til að endurskoða þessa ákvörðun. Gleymum því ekki að náttúra Íslands er einstök á heimsvísu og gildi hennar fyrir allt mannkyn, núlifandi og framtíðar, verður ekki metið til fjár,“ kemur meðal annars fram í yfirlýsingunni.

Að mati stjórnar Landverndar telur að fara eigi mjög varlega í uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi og að þau eigi skilyrðislaust að falla undir rammaáætlun. Stjórnin telur fyrirætlanir um að greiða götu vindorkuvera með sérlögum eins og talað er um í stjórnarsáttmálanum mjög varhugaverða.

Stjórn Landverndar harmar það undanhald sem ríkisstjórnin skipuleggur í verndun Hálendis Íslands. Víðtæk samstaða er um það í samfélaginu að vernda beri hálendið fyrir virkjunum og öðrum mannvirkjum. Þá þarf að bæta verndun einstakra svæða, auka fræðslu og bæta öryggi þeirra sem vilja njóta víðerna, frelsis og náttúru á hálendinu. Besta leiðin til þess er að stofna þjóðgarð, að því er fram kemur í tilkynningunni.

11 mikilvæg mál samkvæmt Landsvernd

Stjórn Landverndar vill nýta þessi tímamót til að tilgreina þau mál sem samtökin telja að eigi að hafa forgang og hvetur ríkisstjórnina til að veita þeim stuðning í starfinu sem framundan er.

1. Lýsa strax yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og bæta stjórnsýslu loftslagsmála tafarlaust.
2. Setja fram framkvæmdaráætlun um Jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2035 og bann við innflutningi á bensín- og díselbílum frá 2023, sem lagt yrði fyrir Alþingi á næsta löggjafaþingi.
3. Lögfesta markmið í loftslagsmálum og koma stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsaloftegunda – en tryggja um leið að gjaldið auki ekki á misskiptingu í samfélaginu (á næsta löggjafaþingi).
4. Lögbinda ákvæði Árósasamningsins um réttindi umhverfissamtaka, samræma lög um mat á umhverfisáhrifum skv. alþjóðlegum skuldbindingum og innleiða ákvæði um umhverfis- og náttúrvernd í stjórnarskrá (fyrir árið 2024).
5. Heimila sveitarfélögum að leggja gjöld á nagladekk í þeim tilgangi að draga úr notkun þeirra og bæta þannig loftgæði og heilsufar íbúa (á næsta löggjafaþingi).
6. Stofna þjóðgarð til að styrkja vernd hálendisins, auka öryggi og bæta aðgengi gesta, endurskipuleggja stjórnsýslu náttúruverndar til að efla hana og hagræða,
7. Að fylgja eftir vinnu við rammaáætlun, og setja á ótímabundið bann við frekari virkjunum á hálendinu (á þarnæsta löggjafarþingi).
8. Gera stórtækt átak til endurheimtar vistkerfa svo sem eins og votlenda og stöðva beit á illa förnu landi. Bæta og fylgja eftir lögum og reglum um framandi ágengar tegundir og lögum er varða lausagöngu búfjár (fyrir árslok 2022).
9. Innleiða umbætur á styrkjakerfum svo tryggja megi sjálfbæra landnýtingu og matvælaframleiðslu (fyrir árslok 2023).
10. Framfylgja af krafti stefnu í úrgangsmálum „í átt að hringrásarhagkerfi“ og opna með lagabreytingum aðgengi almannahagsmunasamtaka að stjórn Úrvinnslusjóðs (á næsta löggjafaþingi).
11. Koma böndum á og stöðva neikvæð umhverfisáhrif fiskeldis í sjókvíum með nauðsynlegum umbótum á lögum og reglum sem um það gilda (fyrir árslok 2022).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert