Lloris jafnar metið - sonur methafans í liðinu

Hugo Lloris jafnar leikjamet Frakka í dag.
Hugo Lloris jafnar leikjamet Frakka í dag. AFP/Franck Fife

Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, jafnar leikjametið í liðinu í dag þegar Frakkar mæta Pólverjum í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar.'

Þetta er hans 142. landsleikur og með því jafnar Loris metið sem Lilian Thuram hefur átt undanfarin ár.

Thuram lauk löngum og glæsilegum ferli sumarið 2008 en hann kvaddi landsliðið í júnímánuði það ár þegar Frakkar féllu úr keppni á Evrópumótinu, þar sem Thuram var fyrirliði.

Í nóvember sama ár spilaði hins vegar Lloris sinn fyrsta A-landsleik í marki Frakka. Það munaði því aðeins nokkrum mánuðum að hann og Thuram næðu að spila saman með landsliðinu.

Hinsvegar spilar Lloris með Thuram um þessar mundir því Marcus Thuram, sonur Lilians Thurams, er í leikmannahópi Frakka á  HM og kom inn á sem varamaður í tveimur fyrstu leikjum þeirra, gegn Ástralíu og Danmörku.

Lloris jafnar annað met í dag en þetta er hans 17. leikur í lokakeppni HM. Áður hafa Thierry Henry og markvörðurinn Fabian Barthez náð 17 leikjum fyrir franska landsliðið á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert