Hertar aðgerðir gætu gilt í sex mánuði

Boris Johnson í þingsal í dag.
Boris Johnson í þingsal í dag. AFP

Hertar aðgerðir vegna kórónuveirunnar í Englandi munu líklega gilda næstu sex mánuði, að því er Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands greindi frá á breska þinginu í dag. Að hans mati er Bretland nú statt á „hættulegum tímamótum“ en Johnson kynnti nýjar reglur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í Englandi í dag.

Samkvæmt þeim þurfa barir og veitingastaðir að loka klukkan tíu, starfsfólk verslana þarf að bera andlitsgrímur og munu mest 15 mega sækja brúðkaup. Einnig er mælst til þess að þeir sem geti unnið að heiman geri það. Sektir fyrir brot á reglum munu hækka í 200 pund, eða því sem nemur rúmum 35.000 íslenskum krónum. 

Enn eru samkomutakmörk í Englandi sett við sex manna samkomur.

Enn hertari aðgerðir mögulegar

Til svipaðra aðgerða verður gripið í öðrum hlutum Bretlands, þ.e. Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi, að sögn Johnsons.

Hann varaði einnig við því að enn hertari aðgerðum gæti verið komið á ef það verður talið nauðsynlegt. 

Smitum kórónuveiru hefur fjölgað mikið í Bretlandi undanfarið og dauðsföllum sömuleiðis. 4.926 smit greindust þar í landi í gær og féllu 37 manns frá. 

Lifandi fréttaveita BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert