Zlatan sneri aftur, skoraði og sló met

Zlatan Ibrahimovic fagnar marki sínu í gær.
Zlatan Ibrahimovic fagnar marki sínu í gær. AFP

Sænski öldungurinn Zlatan Ibrahimovic sneri aftur eftir nokkurra mánaða meiðsli og skoraði annað marka AC Milan þegar liðið vann 2:0-sigur gegn Lazio í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla í gær.

Zlatan hafði verið frá vegna meiðsla frá því í maí og missti meðal annars af þeim sökum af Evrópumótinu í sumar.

Hann kom inn á sem varamaður eftir klukkutíma leik í stöðunni 1:0 og innsiglaði sigurinn aðeins sjö mínútum síðar.

Með því varð hann elsti erlendi leikmaðurinn í sögu ítölsku A-deildarinnar til að skora í henni, 39 ára og 344 daga gamall.

Markið markaði einnig 24. tímabilið af 25 sem Zlatan hefur leikið á ferlinum þar sem hann skorar deildarmark.

Eina tímabilið sem hann náði ekki að skora var 2017/2018 með Manchester United, en þá glímdi hann við meiðsli og náði aðeins að leika fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni og tókst ekki að skora í þeim.

Zlatan skoraði þó í enska deildabikarnum það tímabil og hefur því skorað á hverju einasta tímabili sem hann hefur spilað á ótrúlegum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert