200 hælisleitendur fluttir til á Kanaríeyjum

Hælisleitendur ásamt starfsfólki í móttökuhúsnæði á Gran Canaria.
Hælisleitendur ásamt starfsfólki í móttökuhúsnæði á Gran Canaria. AFP

Spænsk stjórnvöld ætla að flytja 200 hælisleitendur í bráðabirgðabúðir sem herinn hefur sett upp til að bæta aðstæður á Kanaríeyjum.

Yfir sextán þúsund hælisleitendur hafa komið til Kanaríeyja á þessu ári, sem er tíu sinnum meira en á öllu síðasta ári.

Fyrir vikið hefur ringulreið ríkt við höfnina Arguineguin á stærstu eyjunni Gran Canaria.

Mannréttindahópar segja að um tvö þúsund manns hafi sofið á þessu svæði í marga daga og jafnvel vikur við erfiðar aðstæður. Hóparnir segja aðstæðurnar vera ómannúðlegar og hafa krafist aðgerða af hálfu stjórnvalda.  

Í yfirlýsingu frá spænsku ríkisstjórninni kemur fram að bráðabirgðabúðirnar verða í Barranco Seco skammt frá höfuðborg eyjarinnar, Las Palmas, þar sem gömul vopn hafa verið geymd. Þar eru 23 tjöld sem geta hýst 200 manns, að sögn hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert