Forgangsatriði hjá landsliðinu að forðast smit

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland mætir Portúgal á morgun í leik sem gæti haft mikið að segja um framhaldið hjá íslenska liðinu á EM karla í handknattleik. 

„Ég er jákvæður. Við hlökkum til að byrja og þetta verður bara gaman,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, íþrótamaður ársins 2021, yfirvegaður að vanda þegar mbl.is tók hann tali í Búdapest í dag. 

Ísland mætir Portúgal annað kvöld en í B-riðlinum eru einnig Ungverjaland og Holland. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil. Hvernig metur Ómar möguleika Íslands í riðlinum? 

„Þeir eru góðir en þetta eru samt allt hörkulið. Við þurfum að spila vel í hverjum leik til að gera eitthvað. Ef við gerum það þá getum við náð árangri í mótinu,“ sagði Ómar en íslenska liðið hefur undirbúið sig af kostgæfni. Þó er sá munur á undirbúningi liðsins nú eins og fram hefur komið að Ísland lék ekki vináttuleiki fyrir EM þar sem Litháen hætti við Íslandsför í janúar. 

„Þetta er aðeins öðruvísi en verið hefur en mér fannst þetta fínt upp á það að forðast smit. Við erum allir lausir við kórónuveiruna eins og er. Ef við náum að halda því þá væri það klassi en líklega munu ekki mörg lið á EM ná því. Ég held að þessi niðurstaða sé ágæt fyrir okkur og við höfum unnið í að skerpa ýmislegt í okkar leik. Nú er fínum undirbúningi að ljúka og við erum tilbúnir fyrir EM.“

Ómar Ingi Magnússon eftir að kjöri íþróttamanns ársins var lýst.
Ómar Ingi Magnússon eftir að kjöri íþróttamanns ársins var lýst. Ljósmynd/Mummi Lú

Er farið að síast inn hjá Ómari að hann hafi hlotið sæmdarheitið Íþróttamaður ársins, nú þegar farið er að líða á janúar?

„Já já. Ég er búinn að átta mig á því. Það er ekki búið og gleymt en maður þarf að halda áfram með sinn feril og halda einbeitingu. Ég fékk fullt af hamingjuóskum sem var ánægjulegt og maður er stoltur af þessari viðurkenningu en mig langar að afreka meira,“ sagði Ómar Ingi Magnússon í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert