Erlent

Vopnahlé í Líbíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá undirritun samkomulagsins í Genf í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í Genf í dag. EPA/Violaine Martin

Stríðandi fylkingar í Líbíu undirrituðu samkomulag um varanlegt vopnahlé í Sviss í dag.

Átök hafa geisað um alla Líbíu frá því einræðisherranum Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011. Síðustu ár hefur þjóðfrelsisher Khalifas Haftars, sem berst fyrir fulltrúadeild líbíska þingsins sem var kjörin árið 2014, barist gegn alþjóðlega viðurkenndri ríkisstjórn landsins.

Báðar fylkingar hafa notið stuðnings utanaðkomandi aðila í gegnum tíðina. Rússar hafa sent málaliða til að styðja þjóðfrelsisherinn og Sameinuðu arabísku furstadæmin selt honum vopn. Tyrkir sendu svo hersveitir til stuðnings ríkisstjórnarinnar í janúar. 

Lítið hefur verið um átök frá því fjórtán mánaða umsátri þjóðfrelsishersins um höfuðborgina Trípólí lauk í júní. Nú sér loksins til sólar og eftir áratug af linnulausum átökum vonast menn til þess að geta samið um frið. Erindreki Sameinuðu þjóðanna í Líbíu segir undirritun vopnahléssamkomulagsins afar þýðingarmikla.

„Samþykkt var að allar sveitir muni snúa aftur í sínar búðir. Sömuleiðis munu allir málaliðar og erlendar hersveitir yfirgefa Líbíu á næstu þremur mánuðum.“

Stríðandi fylkingar munu funda í Túnis í næsta mánuði um að semja um frið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×