„Engan veginn boðlegt“

Gísli Þorgeir Kristjánsson brýst í gegn og skorar í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson brýst í gegn og skorar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við lögðum í reynd anda og sál í þetta í seinni hálfleik. Það var himinn og haf á milli karaktersins og viljans í seinni hálfleik að mér fannst,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson í samtali við mbl.is eftir endurkomusigur gegn Brasilíu, 41:37, á HM 2023 í dag.

Staðan í hálfleik var 22:18, Brasilíu í vil, en íslenska liðið var mun öflugra í síðari hálfleik.

„22 mörk fengin á sig í fyrri hálfleik á móti Brasilíu, og hvaða liði sem er, er engan veginn boðlegt. Það segir sig bara sjálft.

Í fyrri hálfleik skorum við 18 mörk í sókninni en fáum engin hraðaupphlaup. Flæðið var heilt yfir gott í sóknarleiknum en við þurftum bara að svara andlega,“ bætti hann við.

Brasilísku varnarmennirnir taka hressilega á Gísla Þorgeiri í kvöld.
Brasilísku varnarmennirnir taka hressilega á Gísla Þorgeiri í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gísli Þorgeir lék sjálfur afar vel í leiknum þar sem hann skoraði fimm mörk og gaf tíu stoðsendingar að auki.

Vantaði gegn Svíum

Gísli Þorgeir saknaði viðlíka baráttu og þá sem Ísland sýndi í síðari hálfleik í kvöld gegn Svíþjóð á föstudagskvöld.

„Það var allt annað að sjá hvernig við svöruðum fyrir okkur og við gáfumst aldrei upp. Mér finnst þetta einkenna hjartað og gæðin sem búa virkilega í liðinu, að geta snúið hvaða leik sem er við. Við fórum líka vel með sóknirnar okkar í seinni hálfleik.

Við vorum allan tímann einbeittir á að komast aftur inn í leikinn, að vinna leikinn, sem mér fannst til dæmis vanta á móti Svíum. Að mínu mati var öðruvísi trú til staðar í dag, sem sýndi sig í seinni hálfleik.

Við sögðum það í hálfleik að vörnin þyrfti að þjappast, við myndum fara aðeins aftar, af því að við vorum að tapa öllu allt of einfaldlega og gerðum okkur allt of erfitt fyrir. Mér fannst það breytast til muna í seinni hálfleik.“

Kvöddum stuðningsmennina með stæl

Hann hrósaði þá íslenskum stuðningsmönnum í hástert eftir frammistöðu þeirra á mótinu.

„Auðvitað erum við niðurbrotnir að vera búnir á mótinu en maður hefði farið ennþá lengur niður ef við hefðum þurft að kveðja þessa stuðningsmenn með tapi á móti Brasilíu. Mér fannst við kveðja þá með stæl,“ sagði Gísli Þorgeir að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert