Merkel heimsækir hamfarasvæðin meðan fleiri týna lífi

AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari heimsótti í morgun þorpið Schuld í Rheinland-Pfalz-héraði Þýskalands. Héraðið er eitt af þeim svæðum sem komið hafa hvað verst út úr hinum ógurlegu flóðum á meginlandi Evrópu.

Tala látinna hefur einnig hækkað en að minnsta kosti 156 hafa látist í Þýskalandi og 183 í allri Evrópu. Enn er fjölda fólks saknað og í Rheinland-Pfalz einu og sér eru 110 látnir og 670 slasaðir. Í Belgíu hafa að minnsta kosti 27 týnt lífi.

Í báðum löndum vinna nú björgunarteymi dag og nótt í rústum fallinna mannvirkja í leit að fólki sem gæti hafa komist lífs af. Aðstæður eru sagðar mjög hættulegar og hefur þýska lögreglan sent menn á hraðbátum auk kafara í leit að líkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert