Mosfellingar voru einbeittari með mun betur útfærðan sóknarleik og uppskáru 2:1 sigur á Leikni í Breiðholtinu í dag þegar liðin mættust í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti í efstu deild karla í fótbolta næsta sumar og geta með jafntefli á heimavelli sunnudaginn í seinni leiknum tryggt sér sæti í úrslitaleiknum.
Sigurliðið í þessu einvígi mætir Vestra eða Fjölni í úrslitaleiknum en Vestri vann Fjölni 1:0 á Ísafirði í fyrri leik liðanna í dag.
Leikurinn fór frekar varlega af stað þegar liðin lögðu mikið upp úr að gera ekki mistök – fara frekar varlega fram völlinn í stað þess að opna varnir sínar.
Mosfellingar voru aðeins djarfari til að byrja með enda varð vörn Breiðhyltinga að hafa mjög góðar gætur á framherja Aftureldingar, Arnór Gauti Ragnarsson, sem var snöggur í leita uppi alla veikleika og minnstu mistök.
Fyrsta umtalsverða færið kom á 17. mínútu þegar Ásgeir Marteinsson kom með óvænt skot utan teigs og boltinn stefndi í hornið en skotið of laust og Viktor Freyr Sigurðsson markmaður Leiknis lagðist fyrir boltann.
Tveimur mínútum síðar skallaði Breiðhyltingurinn Omar Sowe að marki Aftureldingar en náði ekki vel til boltans, sem fór yfir markið.
Á 24. mínútu brotnaði ísinn þegar Leiknismönnum tókst ekki að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu gestanna og boltinn rataði síðar á kollinn á Rasmus Christiansen, sem skallaði yfirvegað í vinstra hornið rétt utan seilingar fyrir Viktor Frey í markinu. Staðan 1:0 fyrir Aftureldingu.
Eftir markið virtust Leiknismenn ætla að brjótast inní leikinn en Mosfellingar stóðu það af sér og fóru síðan sjálfir að byggja upp hraðar sóknir, þar sem þeir fjölmenntu fram.
Leiknismenn hófu síðari hálfleikinn af krafti og náðu að komast inn í vítateig Aftureldingar en það kostaði að gestirnir náðu skyndisóknum og úr einni slíkri á 50. mínútu skaut Ivo Braz í slá Leiknis og nokkrum mínútum síðar skaut hann í hliðarnetið af stuttu færi.
Heimamenn voru komnir á bragðið, sáu að þeir gátu komið sér nær marki gestanna og sóttu af meiri krafti en færin létu samt bíða eftir sér.
Á 67. mínútu kom gott færi Leiknismanna þegar Róbert Hauksson skallaði úr miðjum vítateig út við stöng en vel varið hjá Yevgen markverði Aftureldingar og mínútu síðar náði Róbert Quental Árnason skoti af stuttu færi en Yevgen varði aftur vel í horn.
Mark lá í loftinu en það kom hjá Mosfellingum á 76. mínútu þegar Ivo Braz með sendingu frá hægri út í miðjan vítateig þar sem Ásgeir Marteinsson þrumaði framhjá öllum í markteignum til að koma Aftureldingu í 2:0 forystu.
Leiknismenn gáfust ekki upp, hófu að sækja aftur og nú skilaði þung sókn marki þegar Mosfellingar gátu ekki hreinsað frá marki sínu. Boltinn barst síðan til Omar Sowe í miðjum vítateig og hann sem þrumaði í hægra hornið. Staðan 1:2 og um 5 mínútur eftir fyrir utan uppbótartíma.
Breiðhyltingar stóðu góða vörn með Patryk Hryniewicki fyrir miðju en miðjumennirnir voru framan af ekki nógu góðir að skapa fyrir framlínuna, sem fyrir vikið náði ekki að skapa mörg dauðfæri.
Mosfellingar voru, ef eitthvað er, einbeittari. Vörnin vel á verði og kom í veg fyrir góð færi, miðjumaðurinn Ásgeir Marteinsson duglegir við að styðja framlínuna sem var fljót og fjölmenn fram með Arnór Gauta fremstan í flokki.
Síðari leikur liðanna er síðan í Mosfellsbænum á sunnudaginn og þá kemur í ljós hvort liðið fer á Laugardalsvöllinn í einvígi um laust sæti í efstu deild karla.