Eyrarrokk á Akureyri um helgina

Sumarliði Helgason, Helgi Gunnlaugsson og Rögnvaldur Bragi bera hitann og …
Sumarliði Helgason, Helgi Gunnlaugsson og Rögnvaldur Bragi bera hitann og þungann af tónlistarhátíðinni Eyrarrokki sem fram fer á Akureyri um helgina. Þar stíga á svið nokkrar þekktar hljómsveitir frá fyrri tíð. mbl.is/Margrét Þóra

Eyrarrokk er tónlistarhátíð sem haldin verður í fyrsta sinn á Akureyri nú um komandi helgi, föstudag og laugardag. „Þessi hátíð er okkar framlag til að auka við annars fjölbreytt tónlistarlíf á Akureyri,“ segja þeir Rögnvaldur Bragi, Sumarliði Helgason og Helgi Gunnlaugsson sem standa fyrir tónlistarveislunni sem fram fer á Verkstæðinu við Strandgötu 53 á Akureyri, þar sem í eina tíð var Oddviti og síðar Norðurslóðasafn.

Helgi keypti húsið fyrir tæpum tveimur árum, þar rekur hann Vitann mathús virka daga en hefur yfir að ráða góðu plássi að auki þar sem í eina tíð voru tónleikar og dansleikir. Hann hyggst róa á þau mið á ný og Eyrarrokkið er eins konar frumraun í umfangsmiklu tónleikahaldi. Verkstæðið dregur nafn sitt af starfsemi sem áður var í húsinu, en þarna var BSA-verkstæðið til húsa fyrir margt löngu.

Vonandi ekki það síðasta

Eyrarrokk er nú haldið í fyrsta sinn, „en vonandi ekki það síðasta“, segir Rögnvaldur Bragi. Þeir stefna allir ótrauðir að því að um árlegan viðburð verði að ræða í bæjarlífi Akureyringa og gesta þeirra.

Öllu er tjaldað til nú þegar fyrsta Eyrarrokkið er í boði, tónleikar bæði á föstudags- og laugardagskvöld og fjöldi hljómsveita mun stíga á svið.

„Þetta verða nostalgíutónleikar,“ segja félagarnir, en þeir sem koma fram eiga það sameiginlegt að hafa gert garðinn frægan fyrir allt að þremur áratugum sumir hverjir. Á föstudagskvöldinu eru það hljómsveitirnar Chernobyl Jazz Club, Lost, Tvö dónaleg haust, Dr. Gunni og Fræbblarnir sem eiga sviðið. Á laugardagskvöldinu stíga svo á pall Biggi Maus, DDT Skordýraeitur, Dúkkulísurnar, Helgi og hljóðfæraleikararnir, Langi Seli og Skuggarnir og Elín Helena.

Rögnvaldur Bragi segir að í eina tíð hafi verið algengt að nokkrar hljómsveitir sameinuðust um að halda tónleika, þær hefðu yfirleitt ekki haft burði til þess einar og sér. „Þetta var oft mjög skemmtilegt og ég á ljúfar minningar um tónleikahald af þessu tagi,“ segir hann. Staðan er að sögn þeirra félaga svipuð nú, það sé ekki á allra færi að skella upp tónleikum með einni hljómsveit en ef til vill grundvöllur ef margar slá saman.

Flestir til í tuskið

Eftir að hugmynd um tónleikana kviknaði var sent út bréf á þó nokkuð margar sveitir, flestar úr fortíðinni, og jákvæð svör bárust á undraskömmum tíma. „Það voru flestir til í tuskið, þannig að við ákváðum að kýla á þetta,“ segja þeir og eru sannfærðir um að stemningin verði góð. „Þetta verður virkilega skemmtilegt, góða blanda af rokki, popprokki, rokkabillíi og alls konar fleira, bæði fjölbreyttar hljómsveitir og tónlistarstefnur,“ segja þeir félagar brattir og stefna á svipaða tónlistarhátíð að ári, „nema við töpum miklu, þá verður þetta á fimm ára fresti“, segir Sumarliði. „Við stefnum bara að því að fá upp í útlagðan kostnað, það nægir okkur, og svo auðvitað að gestirnir skemmti sér konunglega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert