Fjöldatakmarkanir hafa meira og minna verið við lýði hér á landi frá upphafi faraldurs, en athyglisvert er að skoða þær í samhengi við þróun faraldursins.

Í smitbylgjunni síðasta vetur tók að draga skarpt úr smitum eftir að 20 manna takmarkanir tóku gildi, en fljótlega tók smitum að fjölga skarpt á ný, þrátt fyrir óbreyttar takmarkanir. Var þá brugðið á það ráð að takmarka fjölda við 10 manns en á þeim tímapunkti hafði smitaukningin þegar náð hámarki og fór í kjölfarið skarpt niður. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að grafið sýnir 7 daga hlaupandi meðaltal smita hverju sinni.

Með öðrum orðum tók smitum að fjölga á ný þrátt fyrir óbreyttar 20 manna takmarkanir og tók að fækka á ný áður en 10 manna takmarkanir gátu haft nokkur áhrif. Af þessu má leiða að því líkur að sviptingar þessar hafi öðru fremur komið til af hegðunarbreytingum í samfélaginu tengdum stöðu faraldursins á hverjum tíma, og gefur tilefni til vangaveltna um hvort draga megi úr útbreiðslu smita, ef veikindi taka að aukast mikið, með tilmælum frekar en takmörkunum.

Þrátt fyrir að bylgja síðasta veturs hafi gengið hratt niður í byrjun nóvembermánaðar, og sú þróun hafi hafist áður en 10 manna takmörkun kom til, var þeim takmörkunum framhaldið svo mánuðum skipti áður en miðað var við 20 manns á ný. Þrátt fyrir að sjö daga hlaupandi meðaltal smita hafi ekki farið yfir 20 smit á dag frá því í nóvember á síðasta ári og allt þar til í júlí síðastliðnum voru strangar takmarkanir við lýði frá síðasta hausti og fram á sumar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .