Guðrún leysir Glódísi af hólmi

Guðrún Arnardóttir er komin til Rosengård
Guðrún Arnardóttir er komin til Rosengård AFP

Sænska stórliðið Rosengård tilkynnti í dag að félagið hefði gert tveggja ára samning við íslensku knattspyrnukonuna Guðrúnu Arnardóttur.

Guðrún leysir Glódísi Perlu Viggósdóttur af hólmi hjá liðinu en Glódís gekk á dögunum til liðs við Bayern München í Þýskalandi.

Guðrún, sem fagnar 26 ára afmæli sínu eftir viku, hefur undanfarin þrjú ár leikið með Djurgården í Svíþjóð. Hún fær treyju númer 3 hjá Rosengård.

Miðvörðurinn lék 98 úrvalsdeildarleiki með Breiðabliki og 12 B-deildarleiki með Selfossi áður en hún gerðist atvinnumaður. Hún á ellefu landsleiki að baki fyrir Ísland. Hún lék 47 deildarleiki með Djurgården.

„Ég er mjög ánægð með að vera hluti af stóru félagi eins og Rosengård. Hér er mikill metnaður og ég hlakka til að takast á við áskoranir með nýju liðsfélögunum. Vonandi náum við markmiðum okkar bæði í deildinni og Meistaradeildinni,“ sagði Guðrún á heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert