Erlent

Faldi milljónir á klósettinu í forsetahöllinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Pedro Castillo (með hvítan hatt) þegar hann tók við embætti forseta Perú í júlí.
Pedro Castillo (með hvítan hatt) þegar hann tók við embætti forseta Perú í júlí. Vísir/Getty

Jafnvirði rúmlega 2,6 milljóna íslenskra króna fannst falið á baðherbergi skrifstofustjóra forseta Perú í forsetahöllinni í Lima þegar saksóknarar gerðu húsleit þar fyrir helgi. Skrifstofustjórinn er til rannsóknar fyrir spillingu og sagði af sér á föstudag.

Bruno Pacheco, fyrrverandi skrifstofustjóri Pedros Castillo forseta, er sakaður um að hafa þrýst á yfirmann skatta- og tollastofnunar landsins að veita fyrirtækjum í eigum vina hans vildarkjör. Því neitar Pacheco.

Þegar saksóknarar gerðu húsleit í forsetahöllinni á föstudag fundu þeir tuttugu þúsund dollara á salerni á skrifstofu Pacheco. Hann fullyrðir að hann hafi átt peningana sem hafi verið hluti af launum og sparnaði hans. Skrifstofustjórinn er sagður hafa um 6.250 dollara í mánaðarlaun.

Pacheco hafnar því alfarið að hann hafi sagt af sér vegna þess að hann hafi brotið af sér. Þess í stað hafi hann stigið til hliðar svo að forsetinn yrði ekki álitshnekk vegna þess sem Pachecho kallar „rógsherferð“, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Castillo tók við embætti forseta Perú í júlí en hann bar sigur af Keiko Fujimori, frambjóðanda hægrimanna og dóttur fyrrverandi einræðisherra landsins, í forsetakosningum. Sótt er að Castillo úr höllum áttum þessa dagana. Flokkur Fujimori ætlar að kæra forsetann til embættismissis og fyrrum félagar hans í kennarasambandi landsins hafa staðið fyrir kröfugöngum til að krefjast bættra kjara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×