Iðrast mistakanna sem leiddu til banaslyssins

Slysið varð um klukkan níu að morgni á skírdag þegar …
Slysið varð um klukkan níu að morgni á skírdag þegar lestin var á leið í gegnum jarðgöng. AFP

Verkstjóri á byggingarsvæði í Taívan segist frá sér numinn af sorg vegna þeirra mistaka sem urðu á svæðinu er vöruflutningarbíll rann á lestarteina nærri borginni Hualien. Atvikið varð til þess að lest sem átti leið um fór út af sporinu og yfir 50 manns létust og 200 slösuðust.

Maðurinn, Lee Yi-hsiang, tilheyrði teymi sem ferðast reglulega um fjallahéruð landsins til að fylgjast með hættunni á aurskriðum sem gætu fallið á lestarteinana. Hann er talinn hafa verið undir stýri vörubílsins skömmu áður en hann rann á lestarvagnana.

Lee hefur verið yfirheyrður vegna málsins. Honum var fyrst sleppt úr haldi gegn tryggingafé, en á páskadag var hann úrskurðaður í varðhald á ný þar sem talin var hætta á að hann stryki. Í yfirlýsingu sem hann flutti fjölmiðlamönnum fyrir utan heimili sitt sagðist Lee hins vegar myndu vinna með rannsakendum slyssins og taka ábyrgð á því sem honum bæri.

Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í Taívan í kjölfar slyssins, sem er mannskæðasta lestarslys í landinu í áratugi. Um 500 farþegar voru um borð í lestinni sem var á leið frá höfuðborginni Taipei til Taitung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert