Hafísspöng nálægt Íslandi og færist austur

Hafís norðvestur af landinu. Mynd úr safni.
Hafís norðvestur af landinu. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafís er fyrir norðan Hornstrandir og á austurleið næstu daga. Aðallega er um að ræða veturgamlan hafís úr Grænlandshafi þó að innan um gætu leynst stærri borgarísjakar, segir Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við landafræði við Háskóla Íslands.  

Hafísspöngin er aðskilin meginhafísþekjunni djúpt úti fyrir Húnaflóa.

Rannsóknastofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá birti fyrr í dag gervitunglamynd af hafísnum, þar sem rýnt er í stöðuna.

Kort byggt á gervitunglamynd af hafísnum.
Kort byggt á gervitunglamynd af hafísnum. Kort/HÍ

Stöðugar suðvestanáttir

Á veturna myndast nýr ís, svokallaður vetrarís. Hann hefur verið að myndast frá síðasta hausti og útbreiðslan nær yfirleitt hámarki í febrúar, þegar litið er á norðurslóðir í heild.

Það er aðallega sá ís sem um er að ræða að þessu sinni, segir Ingibjörg. 

Svo rekur ísinn suður með Austur-Grænlandsstraumnum, sem er hafstraumur austan við Grænland. Nokkuð stöðugar suðvestanáttir reka ísinn svo austur. Hann rekur aðeins til hægri við vindstefnu og er það meginástæða þess að hafísinn hefur rekið nálægt Íslandi undanfarna daga.

Mikilvægt að sjófarendur viti af þessu

Aðspurð segir Ingibjörg mikilvægt að tilkynna hafís, enda geta jakar verið vandséðir í ratsjám skipa en samt skeinuhættir. Jafnramt sé líklegt að fólk reikni ekki með hafís svo austarlega.

Því sé hafísspöngin sérstaklega merkt á myndina. Það sé ólíklegt að ísspöngin valdi einhverjum vandræðum en mikilvægt sé að sjófarendur viti af þessu.

Ingibjörg bætir við að vonandi fylgi hafísnum ekki bjarndýr, en slíkt sé ekki algengt. Hún bendir á að aðstæðurnar geti breyst hratt vegna strauma og vinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert