Innlent

Anna Aurora bakvörður ætlar í mál við íslenska ríkið og fleiri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hópsýking kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og var staðan grafalvarleg um tíma. Starfsfólk fór í sóttkví og voru bakverðir sendir til starfa. Þeirra á meðal Anna Aurora.
Hópsýking kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og var staðan grafalvarleg um tíma. Starfsfólk fór í sóttkví og voru bakverðir sendir til starfa. Þeirra á meðal Anna Aurora. Vísir/Vilhelm

Anna Aurora Waage Óskarsdóttir ætlar að stefna íslenska ríkinu vegna handtöku hennar á Vestfjörðum í apríl þar sem hún var grunuð um að villa á sér heimildir sem bakvörður á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Þá ætlar hún að stefna fjölmiðlum og einstaklingum sömuleiðis. Lögmaður hennar segir mikla vinnu framundan að hreinsa mannorð skjólstæðings síns.

Greint var frá því 10. apríl að kona úr bakvarðarsveit Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefði verið handtekin. Sú hafði starfað í nokkra daga á hjúkrunarheimilinu en hún hafði skráð sig í bakvarðasveit sem sjúkraliði. Gylfi Ólafsson, forstjóri HVE, sagði að málið hefði verið tilkynnt til lögreglu um leið og það kom upp.

Málið kom upp á viðkvæmum tíma enda hafði verið óskað eftir bakvörðum til starfa í Bolungarvík eftir að hópsýking kom upp á Bergi.

Færð í fangageymslur á Ísafirði

„Þetta er auðvitað hörmulegt atvik. Okkur fannst við vera að ná vopnum okkar en svo kemur þetta ofan í allt sem á undan er gengið. Skjölum um menntun og starfsreynslu var safnað þegar bakvarðasveitin var sett saman, en við höfum því miður ástæðu til að halda að hún hafi framvísað fölsuðum gögnum,“ var haft eftir Gylfa í tilkynningu.

Konan var færð í fangageymslur á Ísafirði og var tekið úr henni sýni vegna mögulegs Covid-19 smits. Allir úr bakvarðasveitinni fóru sömuleiðis í sýnatöku en enginn greindist smitaður af Covid-19.

Konan var nafngreind í nokkrum fjölmiðlum og ýmsar ásakanir komu fram. Presti var meðal annars sagt upp störfum hjá Þjóðkirkjunni eftir að hann greindi frá samskiptum sínum við Önnu Auroru. Biskup sagði hann hafa brotið trúnað við sóknarbarn.

Í yfirlýsingu frá Jóni Bjarna Kristjánssyni, lögmanni Önnu Auroru í dag, segir að Anna hafi eins og margir svarað kalli sóttvarnayfirvalda og gefið kost á sér í bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar.

Umfjöllun um Önnu hafi verið afar óvægin eftir að hún var handtekin og athugasemdir netverja ekki síður. Jón Bjarni segist hafa ráðið henni frá því að svara fjölmiðlum sem hafi sótt að henni.

„Í einu yfirlýsingu Önnu, sem var gefin í apríl, lýsti hún fullvissu sinni að rannsókn lögreglu yrði til að hreinsa hana af ávirðingum þessum. Henni þykir miður að fjölmiðlar hafi ekki svarað kalli hennar þá að gæta stillingar í umfjöllun sinni þar til mál væri að fullu rannsakað,“ segir Jón Bjarni. Meðferð fjölmiðla hafi haft í för með sér algeran mannorðsmissi fyrir Önnu.

Niðurlægjandi og meiðandi handtaka

Þá vísar Jón Bjarni í brot úr erindi héraðssaksóknara þar sem segir:

„Eins og rakið er hér að framan liggur fyrir að kærða tilgreindi í umsókn sinni um starf á Bergi að hún væri sjúkraliðanemi og í fyrirliggjandi ráðningarsamningi kærðu er starf kærðu tilgreint sem aðhlynning. Ekkert hefur komið fram við rannsókn málsins sem gerir það líklegt að kærða hafi blekkt þá sem réðu hana til starfa og sagt þeim að hún væri menntuð sem hjúkrunarfræðingur eða að hún væri með aðra sambærilega menntun.“

Anna hafi nú loks verið hreinsuð af öllum sakáburði frá því á vormánuðum.

„Nú tekur við hjá henni að endurheimta mannorð sitt og æru. Þá liggur fyrir að mikil vinna er fram undan við að sækja bætur og ómerkja rangindi og ærumeiðingar sem fjölmiðlar og netverjar hafa viðhaft um hana. Þá mun hún jafnframt höfða mál á hendur íslenska ríkinu fyrir handtöku hennar sem var algjörlega tilefnislaus og fór fram á óþarflega niðurlægjandi og meiðandi hátt.“


Tengdar fréttir

Bakvörðurinn á Bergi verður ekki ákærður

Kona sem var grunuð um að hafa villt á sér heimildir sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins verður ekki ákærð. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari við Vísi. 

Kirkjan stendur á sínu í máli séra Skírnis

Biskupsstofa segir misskilnings eða rangfærslna hafa gætt í umfjöllun um mál séra Skírnis Garðarssonar, sem var rekinn úr starfi sínu sem héraðsprestur á Suðurlandi í síðustu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×