Tveir íslenskir hestar felldir vegna herpesveiru

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir íslenskir hestar í Þýskalandi hafa verið felldir eftir að hafa greinst með skæða herpesveiru. Veiran hefur herjað á hesta um Evrópu og komið upp á að minnsta kosti fjórum búgörðum í Þýskalandi þar sem íslenskir hestar eru haldnir.

Greint er frá þessu á vef tímaritsins Eiðfaxa og haft eftir tilkynningu frá Landssamtökum íslenska hestsins í Þýskalandi.

Fjallað var um útbreiðslu veirunnar í Morgunblaðinu í síðasta mánuði í tilefni þess að Matvælastofnun sendi frá sér aðvörun vegna útbreiðslu hennar sem magnaðist upp á stóru móti í hindrunarstökki í Valencia á Spáni í febrúar.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, að ástæða væri fyrir hestafólk á Íslandi til að vera á varðbergi og virða þær ströngu reglur sem gilda um varnir gegn sjúkdómum af þessu tagi.

Ísland er líklega eina landið í heiminum sem laust er við hestaherpes (týpu 1) enda ólöglegt að flytja hesta til landsins undir nokkrum kringumstæðum, sem og notaðan búnað. Sigríður bendir þó á að veiran geti einnig borist með fólki og ástæða sé fyrir hestamenn sem fara í vinnuferðir til útlanda að vera sérstaklega á varðbergi við komuna til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert