Stærsti dagur ársins hjá blómasölum

Didda í 18 rauðum rósum.
Didda í 18 rauðum rósum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Það hefur verið stöðugur straumur í dag síðan klukkan átta í morgun þegar við opnuðum. Það eru ellefu manns í vinnu í dag og við höfum ekki stoppað við að útbúa blómvendi,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir eða Didda eins og hún er alltaf kölluð. Hún er eigandi 18 rauðra rósa í Hamraborg í Kópavogi.

„Það er búið að vera standandi röð í allan dag, allt að tuttugu manns. Eða ég veit það ekki, ég hef ekki haft tíma til að líta út um gluggann,“ segir Didda. 

Didda segir konudaginn stærsta dag ársins og daginn toppa sig ár eftir ár. 18 rauðar rósir er eina blómabúðin í Kópavog fyrir utan í Smáralind. Hún segist ekki hafa tölu á því hversu marga vendi hún hafi gert í dag, en þeir hlaupi á hundruðum. Hún hafi skipulagt daginn vel; haft fyrirframtilbúna vendi frammi og keypt vel inn.

Valentínusarmessa, útskriftir og konudagur

„Fólk er bara þyrst í að gera eitthvað, það hefur verið mikið að gera alveg frá því að Covid byrjaði. Það er svo mikið af fólki á landinu,“ segir Didda. 

Hinn 14. febrúar síðastliðinn var Valentínusarmessa, sem fleiri og fleiri pör halda hátíðlega á Íslandi. Þá voru útskriftir úr háskólunum í dag og konudagur. 

Didda segir minna hafi verið um blómaskreytingar vegna útskriftar og greinilegt að ekki séu haldnar jafn margar veislur. „En það er alltaf verið að gefa blóm.“

Didda segist kaupa langmest íslensk blóm en eitthvað sé innflutt, „grænt aðallega flutt inn“. Öll helstu blóm séu ræktuð á Íslandi eins og rósir, gerberur og liljur. Brúðarslör og nellikur eru hins vegar flutt inn.

Davíð Þórisson með blóm fyrir sína konu.
Davíð Þórisson með blóm fyrir sína konu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
Elvar Logi og sonur. Fyrir konuna, ömmu langömmu. Allar konur …
Elvar Logi og sonur. Fyrir konuna, ömmu langömmu. Allar konur í lífi þeirra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka