Fundust látnir í námunni

Qinghai-hérað í Kína sést ofarlega vinstra megin á myndinni.
Qinghai-hérað í Kína sést ofarlega vinstra megin á myndinni. Kort/Google

Nítján námumenn, sem lentu í sjálfheldu neðanjarðar eftir að kolanáma í Kína féll saman í síðasta mánuði, fundust látnir í dag eftir umfangsmikla björgunaraðgerð.

Loftið í Chaidaer-kolanámunni í Qinghai-héraði í Norðvestur-Kína féll skyndilega saman 14. ágúst með þeim afleiðingum að 20 létust. 21 maður var að störfum í námunni þegar slysið átti sér stað. Tveir voru dregnir upp á yfirborð jarðar áður en hinir 19 fundust en aðeins annar þeirra var á lífi.

Yfir þúsund manns tóku þátt í björgunaraðgerðinni sem stóð yfir í næstum 30 daga. Aðstæður auðvelduðu ekki leitina en aðgengi að námunni er í 3.800 metra hæð yfir sjávarmáli.

Námuslys eru algeng í Kína en reglugerðum sem varða vinnuöryggi er talið ábótavant. Í janúar létust 11 námumenn eftir að hafa lent í sjálfheldu í tvær vikur neðanjarðar þegar náma í Shandong-héraðinu í Austur-Kína féll saman. Sprenging í gullnámu í sama héraði varð 10 einstaklingum að bana mánuði seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert